„Augljóslega trylltist ég við fréttirnar“

Harpa Rún með viðurkenninguna í Höfða í dag. Ljósmynd/Halla Ósk Heiðmarsdóttir

Harpa Rún Kristjánsdóttir frá Hólum við Heklurætur hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðahandritið Edda.

„Augljóslega trylltist ég við fréttirnar,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is, aðspurð út í viðbrögð hennar við fréttunum.

Alls bárust 58 óbirt ljóðahandrit undir dulnefni í samkeppnina. Dómnefndina skipuðu Sif Sigmarsdóttir, Þórarinn Eldjárn og Börkur Gunnarsson.

Erfitt að þegja
„Ég var í Veiðivötnum og greip svo fast í lærið á Sigurði að hann er sennilega enn með marblett! En það er búið að vera ansi erfitt að þegja,“ segir Harpa Rún en umræddur Sigurður [Rúnar Rúnarsson] er unnusti hennar.

„Þessi bók er saga um æsku og elli. Og það hvernig það er að standa þar á milli. Ég byrjaði á henni haustið 2017 en kláraði sumarið ‘18. Það var ekki fyrr en þá um vorið að ég vissi að þetta yrði bók,“ segir Harpa Rún. Verðlaunaféð nemur 800 þúsund krónum.

Í lagi að henda höfuðstöfunum stundum
Edda er fyrsta ljóðabók Hörpu Rúnar en þó ekki fyrsta bókin sem geymir ljóðrænan texta eftir hana. Ljósmyndabókin Þingvellir – í og úr sjónmáli kom út haustið 2018 en í henni má finna texta eftir Hörpu Rún við ljósmyndir eftir þau Sigrúnu Kristjánsdóttur og Pálma Bjarnason.

Harpa Rún skrifaði einnig í ljósmyndabókina On the road in Iceland ásamt ljósmyndaranum Grétu Guðjónsdóttur fyrir nokkrum árum.

Harpa Rún segir að hún hafi alltaf skrifað. „En kannski ekki ljóð fyrir alvöru fyrr en á öðru ári í háskólanum. Þar lærði ég að það er í lagi að henda höfuðstöfunum stundum og leyfa tilfinningunni að flæða.“

„Bókin er komin í allar bókaverslanir en það er útgáfuhóf í Árbæjarsafninu á föstudaginn kl. 17. Þar ætlar besti vinur minn og slammmeistari að skemmta. Ég að græta fólk og lesa upp og auðvitað selja bókina ódýrt og árita,“ segir Harpa Rún að lokum.

Látlaust verk um dramatískustu andartök ævinnar
Í umsögn dómnefndar segir að Edda sé látlaust verk um dramatískustu andartök hverrar mannsævi; upphaf hennar og endi.

„Í bókinni fylgist ljóðmælandi með nýju lífi kvikna er annað fjarar út. Klemmdur milli upphafs og endis, nýkviknaðs lífsneista og kulnaðs báls, kemur hann auga á hliðstæður.

Ljóðin ferðast milli fyrstu augnablika lífsins til þeirra síðustu. Bjargarleysi barnsins kallast á við vanmátt og minnisleysi elliáranna. Orðin er og var eru bergmál sem kasta milli sín treganum. Gleðin og sorgin takast á, tvinnast saman og verða loks eitt. Því rétt eins og Eddurnar tvær sem bókin fjallar um – sú unga og sú aldna – hefði önnur ekki orðið til án hinnar.

Greina má í ljóðunum sátt við gang lífsins þótt hann sé sársaukafullur, nýtt líf kviknar þegar það gamla slokknar. Edda er heillandi og hófstillt verk þar sem hugsanir um æsku og elli fléttast saman, vega salt. Þræðirnir bindast og mynda vef sem sýnir okkur í nýju ljósi svo margt sem við þóttumst vita,“ segir í umsögninni.

Sunnlenska.is óskar Hörpu Rún innilega til hamingju með verðlaunin.

Harpa Rún ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra og dómnefndinni; þeim Sif, Þórarni og Berki. Ljósmynd/Halla Ósk Heiðmarsdóttir
Kápa bókarinnar.
Fyrri greinHornafjörður fær fjárstyrk vegna úrkomuveðurs og vatnavaxta
Næsta greinSlæm byrjun hjá Hamri