Auðnuspor með þér

Leikararnir Kristjana Skúladóttir og Þór Breiðfjörð halda tónleika undir yfirskriftinni „Auðnuspor með þér“ í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum, sunndagskvöldið 19. október kl. 20:00.

Dagskráin byggir á íslenskri dægurtónlist, vögguljóðum og fleiru forvitnilegu sem tengist sambandi barna og foreldra á einn eða annan hátt.

Öll erum við börn foreldra okkar og mörg okkar erum við líka foreldrar. Þessi veruleiki hefur löngum verið skáldunum hugleikinn og því er ógrynni til af yrkisefni af þessum toga, bæði gömlu og nýju.

Þór og Kristjana ásamt Aðalheiði Þorsteindóttur píanóleikara ætla að sækja í þennan sjóð og flytja dagskrá sem byggir á tónlist og einnig frásögnum og pælingum þeirra á þessu viðfangsefni. Þau ætla að rýna í gamla tíma, bera saman við nútímann og fara um víðan völl. Lagavalið er afar fjölbreytt, Hvert örstutt spor, Ókindarkvæði og allt þar á milli. Ekki bannað börnum en klárlega ætlað fullorðnum.

Þór Breiðfjörð er einna þekktastur fyrir feril sinn í söngleikjum hér og erlendis. Hann fékk Grímuna fyrir hlutverk sitt í Vesalingunum árið 2012 og vinnur að mestu hérlendis um þessar mundir. Plata hans Á ljúfu kvöldi kom út fyrir jól við góðar viðtökur. Þór hefur sungið víða síðan hann kom heim meðal annars í tónleikaröðum sínum, „Lögin úr teiknimyndunum“ og „Kvöldstund með Þór Breiðfjörð“

Kristjana Skúladóttir snýr nú aftur í Salinn eftir að hinir geysivinsælu tónleikar hennar Söngkonur stríðsáranna hafa gert víðreist um landi þvert og endilangt. Kristjana, sem er frá Miðfelli í Hrunamannhreppi, hefur starfað bæði sem leikkona og söngkona. Hún gaf út barnaplötuna Obbosí, áðurnefndar Söngkonur stríðsáranna og einnig fjórar plötur með barnaefni af Sögustund.is.

Aðalheiður Þorsteinsdóttir hefur m.a. starfað sem píanóleikari, organisti, útsetjari og kennari og unnið með fjölda einsöngvara og kóra.

Fyrri greinMílan fékk skell gegn Víkingum
Næsta greinMerkur áfangi í Njálureflinum