„Átti alls ekki von á að hann hefði nokkurn áhuga á þessu“

Weekendson & Sadler.

Síðastliðinn föstudag kom út á öllum helstu streymisveitum lagið The Trap. Lagið er samstarfsverkefni íslenska tónlistarmannsins Weekendson og söngvarans Michael Sadler, sem er þekktastur fyrir að vera söngvari hinnar heimsfrægu prog rock hljómsveitar Saga frá Kanada.

Hinn íslenski Weekendson heitir réttu nafni Jón Þór Helgason. Jón Þór segir að það hafi komið sér ótrúlega mikið á óvart hversu gott var að vinna með Michael Sadler.

„Til að byrja með þá átti ég alls ekki von á að hann hefði nokkurn áhuga á þessu. Ég var að vinna í þessu lagi, og var að rembast við að syngja það, en fann strax að lagið var alls ekki fyrir mig. Þá kom strax upp í hugann að þetta væri lag fyrir Michael Sadler. Ég ákvað bara að prufa að senda honum skilaboð á Facebook. Ég hugsaði með mér að það versta sem myndi gerast væri að hann myndi segja nei – ef hann myndi svara á annað borð,“ segir Jón Þór í samtali við sunnlenska.is.

Auðvelt að segja honum til
Ekkert bólaði á svari frá Sadler þannig að Jón Þór prófaði að senda aftur og minna á sig.

„Hann svaraði þá eftir nokkra daga og gaf mér upp emailið hjá umboðsmanninum sínum. Þannig að ég skrifaði henni tölvupóst og bar upp erindið og hafði lagið í viðhengi. Nokkrum dögum seinna kom svar frá umbanum um að Michael væri heldur betur til í slaginn. Fannst lagið frábært. Þannig að það varð úr að hann vildi gera þetta með mér,“ segir Jón Þór og bætir við að öll samskipti þeirra á milli hafi verið ótrúlega vinaleg og skemmtileg.

„Ég hef verið að tala bæði við Michael og konuna hans. Virkilega vandað fólk. Michael sendi mér meira að segja videó afmæliskveðju þegar ég átti afmæli um daginn. Og það kom mér líka á óvart hvað það var auðvelt að segja honum til. Hann tók öllum mínum ábendingum frábærlega og maður fann svo innilega hvað hann vildi vanda sig og gera þetta vel. Hann gerði þetta af mikilli alvöru og lagði ótrúlega mikla vinnu í þetta. Fyrir mér þýddi þetta að hann hefði trú á laginu. Og ég vona að honum hafi fundist jafn gott að vinna með mér, eins ég mér fannst að vinna með honum.“

Weekendson.

Sadler endurskrifaði allan textann
Sadler vildi breyta texta Jóns Þórs töluvert og Jóni fannst sjálfsagt að verða við því.

„Söngurinn verður alltaf betri ef söngvarinn skilur textann og trúir á textann. Það endaði eiginlega með því að hann endurskrifaði nánast allann textann, en samt með sama boðskap og ég lagði upp með. Það voru nokkrar setningar eða brot af setningum frá mér sem fengu að standa,“ segir Jón Þór og hlær.

Textinn er um konu sem er ginnt í samband með manni þar sem allt sýnist fallegt á yfirborðinu en þegar á líður, sýnir hann sitt rétta andlit og konan er föst í gildru.

„Þetta er saga sem ég þekki. Manneskja sem mér þykir vænt um lenti í þessu og áttaði sig seint á því. Hún náði að slíta sig lausa að lokum, nánast gjaldþrota, bæði fjárhagslega, og andlega út af honum. Og í rauninni er þetta lag hennar saga. En á sama tíma ekki bara hennar, því það er því miður ótrúlega mikið af fólki þarna úti sem hefur þessa sömu sögu. Þegar ég fór að spá í coverinu hafði ég samband við stelpu frá Serbíu sem hefur teiknað fyrir mig áður. Við fórum að ræða hvernig best væri að teikna lagið á einni mynd og þegar hún hafði lesið textann sagði hún „þetta er saga mömmu minnar“, þannig að því miður þá er sagan sem er sögð í þessu lagi, alltof algeng,“ segir Jón Þór að lokum.

Fjölþjóðlegur hópur listamanna
Þess má geta að Michael Sadler er ekki eini meðlimur Saga sem kemur fram í þessu lagi því trommuleikarinn Mike Thorne tók upp trommur fyrir lagið. Hann trommaði einnig lagið The Clown fyrir Weekendson sem kom út í lok apríl síðastliðnum. Einnig hefur hann tekið upp trommur við fleiri lög sem Weekendson er að vinna að.

Weekendson spilar á gítarinn í nýja laginu en aðrir listamenn sem koma að því eru Hrafnkell Gauti Sigurðsson, sem töfraði fram gítarsóló, Andy Warner frá Kýpur spilar á bassa, syntha upptökur voru í höndum Gabríel Crespo frá Brasilíu og bakraddir syngur Íris Eysteinsdóttir. Weekendson stjórnaði upptökunum, hljóðblöndun var í höndum Gísla Kjaran Kristjánssonar og um hljómjöfnun sá Njal Frode Lie.

Fyrri greinHarpa ráðin forstöðumaður Kötluseturs
Næsta greinGleðistund frestað vegna takmarkana