Ásjóna – síðasta sýningarhelgi

Um helgina er síðasta sýningarhelgi Ásjónu í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Á sýningunni eru eldri verk úr safneigninni til sýnis auk verka sem safninu hafa verið gefin á undanförnum árum og ekki verið sýnd þar áður. Áhersla sýningarinnar er á portrett og teikningu og gestum er boðið að spreyta sig sjálfir á teikninu.

Nálgun og hugsun myndlistarmannanna sem eru höfundar verkanna og stílar þeirra eru mismunandi, en verkin eru þarna til þess að njóta, hafa áhrif og vera kveikja nýrra hugmynda.

Verkin eru öll frá 20. öldinni, það elsta frá því um aldamótin 1900, Sjálfsmynd Ásgríms Jónssonar þar sem hann horfir rannsakandi fram í rýmið sem ungur listnemi í Kaupmannahöfn, en yngsta verkið á sýningunni er Höfuðfætlur eftur Magnús Kjartansson frá níunda áratugnum. Portrett af bændum í Grímsnesi eftir Baltasar eru þar líka auk verka eftir Kjarval, Höskuld Björnsson, Ástu Guðrúnu Eyvindardóttur, Halldór Einarsson, Sigurjón Ólafsson og fleiri auk myndvefnaðar Hildar Hákonardóttur af 25 sunnlenskum konum. Mörg verkanna hafa sterkar rætur í nærsamfélaginu.

Fyrri greinEinstök náttúra Eldsveitanna
Næsta greinHorfa til Skógasands um sorpurðun