Ásgerður Birna setti heimsmet

Á fundi kvæðamannafélagsins Árgala í Árborg í gærkvöldi bar það helst til tíðinda að á samkomunni var sett glæsilegt heimsmet í að kveða stemmur.

Það var hin fjögurra ára Ásgerður Birna Halldórsdóttir sem setti glæsilegt met með því að að vera yngst allra til að kveða stemmur á opinni samkomu kvæðamanna.

Fyrra metið átti sex vetra sveinn og hafði það met staðið alllengi.

Fundurinn, sem var mjög fjölmennur, var haldinn í aðsetri félagsins í Árbæ á vesturbakka Ölfusár. Formaður félagsins, Sigurður Sigurðarson, f.v. yfirdýralæknir, stjórnaði fundi að sinni alkunnu reisn.

Árgalafélagar munu koma fram á Selfossi á 17. júní.