Ásgeir með tvenna tónleika á Suðurlandi

Ásgeir.

Ásgeir heldur tónleika Í Skyrgerðinni í Hveragerði laugardaginn 11. júlí og á Midgard Base Camp á Hvolsvelli sunnudaginn 12. júlí. 

Í báðum tilvikum opnar húsið kl. 20:00 en tónleikarnir hefjast kl. 21:00. Miðasala fer fram á Tix.is.

Í febrúar á þessu ári gaf Ásgeir út sína þriðju breiðskífu og til stóð að hann myndi verja mestum hluta ársins á tónleikaferðalögum erlendis við að kynna plötuna. Árið hófst með mánaðarlöngu tónleikaferðalagi um Evrópu í febrúar og þaðan var haldið til Bandaríkjanna í byrjun mars þar sem einnig var framundan mánaðarlangt tónleikaferðalag. Þegar um vika var liðin af túrnum um Bandaríkin var kórónuveiran farin að láta verulega á sér kræla þar í landi sem og í Evrópu og að vandlega athuguðu máli var ákveðið að aflýsa tónleikaferðalaginu og halda heim á leið. Öllum öðrum ferðum Ásgeirs út árið var einnig frestað, þar á meðal tónleikum í Japan, Ástralíu og fyrstu tónleikum Ásgeirs á Nýja-Sjálandi.

Ekki er útlit fyrir að Ásgeir spili utan landsteinanna fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári en tónlistin og þörfin fyrir að leika fyrir annað fólk kallar og því hefur Ásgeir ákveðið að fara í tónleikaferð um Ísland í júlí þar sem hann leikur á 13 tónleikum á 17 dögum.

Fyrir tveimur árum fór Ásgeir í samskonar tónleikaferðalag þar sem hann prufukeyrði lög af plötunni sem nú er komin út og reynslan af að ferðast um landið, njóta íslenska sumarsins og leika fyrir samlandana var svo góð að Ásgeir vildi ólmur grípa tækifærið og endurtaka leikinn.

Fyrri greinLitháískur landsliðsmarkvörður til Selfoss
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys í Hrunamannahreppi