Åsa sýnir í Hveragerði

Föstudaginn 13. júlí síðastliðinn opnaði Åsa Waara myndlistarsýningu „Við sprunguna“ á Bókasafninu í Hveragerði.

Åsa Waara er fædd í Malmberget í Norður-Svíþjóð, en býr núna í Luleå þar sem hún er í doktorsnámi við háskólann. Rannsóknarefni hennar er innan „Energy Informatics” og fjallar um miðlun upplýsinga um orkunotkun.

Hún stundaði nám við Konstskolan i Sunderbyn í tvö ár og var aðaláherslan á textílmálun og –þrykk, textíl- og leirvinnu. Einnig hefur hún kennsluréttindi í meðferð á PMC silfurleir.

Åsa kom fyrst til Íslands 1999 sem skiptinemi við Háskóla Íslands. Hún heillaðist af landinu og hefur komið aftur og aftur. Ísland hefur veitt henni innblástur með fallegu landslagi, formum og litum og andstæðunum sem landið býður upp á. Hún kynntist frábærri fjölskyldu í Hveragerði og líkar vel við bæinn og langaði því til að sýna verkin sín þar, en hún hefur sýnt víða í Svíþjóð síðan 2005.

Verk Åsa endurspegla oft hugsanir og minningar. Hún vinnur í mismunandi tækni og efni, svo sem silfur, ull, textílmálun, vatnsliti og akrýl. Á Bókasafninu í Hveragerði sýnir Åsa aðallega textílmálun, en einnig dálítið af silfri. Myndirnar spegla liti og landslag Norður-Svíþjóðar, sem gjarna eru áhrifavaldar í verkum Åsa, en líklega geta sýningargestir einnig séð líkindi með Íslandi.

Sýningin er sölusýning og er opin um leið og safnið, mánudaga til föstudaga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.