Árnesingar og Skaftfellingar áfram

Fyrsta umferð í spurningakeppni átthagafélaganna á höfuðborgarsvæðinu fór fram í gærkvöldi í Breiðfirðingabúð. Árnesingar og Skaftfellingar komust áfram en Stokkseyringar féllu úr leik.

Lið Árnesingafélagsins keppti við Önfirðingafélagið og sigraði 17-10. Árnesingar eru þar með komnir í 8-liða úrslit. Í gær kepptu fyrir Árnesinga Sigmundur Stefánsson og Stefán Þór Sigurjónsson frá Arabæ í Gaulverjabæjarhreppi og Sigurður Eyþórsson frá Kaldaðarnesi í Sandvíkurhreppi.

Skaftfellingar eru einnig komnir í 8-liða úrslit en þeir unnu Átthagafélag Djúpmanna nokkuð örugglega, 19-8. Í liði Skaftfellinga eru þeir Fjalar Hauksson frá Kirkjubæjarklaustri, Salómon Jónsson frá Ketilsstöðum í Mýrdal, og Þórhallur Axelsson frá Hornafirði.

Stokkseyringafélagið varð hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir Dýrfirðingafélaginu 9-15. Í liði Stokkseyringafélagsins voru Guðbrandur Stígur Ágústsson, Þórður Guðmundsson og Sveinn Valgeirsson.

Fyrri greinSelfoss semur líka við Martínez
Næsta greinFjölheimar vígðir að viðstöddum fjölda fólks