Bókabæirnir austanfjalls bjóða upp á ljóðaupplestur Arnars Jónssonar leikara í leikhúsinu við Sigtún á Selfossi, sunnudaginn 18. maí kl. 15:00.
Arnar Jónsson er sannarlega einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar. Leikferill Arnars spannar marga áratugi og hann hefur leikið á flestum sviðum íslenskra leikhúsa, í útvarpi og sjónvarpi bæði sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Hann leikstýrði m.a. uppfærslu Leikfélags Selfoss á Sem yður þóknast eftir William Shakespeare árið 1984.
Hann hefur líka getið sér gott orð fyrir einstakan flutning á ljóðum og gaf nýlega út plötuna Ljóðastund með Arnari. Þar fer hann með nokkur af sínum uppáhaldsljóðum. Þennan flutning hefur hann svo gert að sýningu sem hefur verið sýnd í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þar fjallar hann um mikilvægi ljóðanna fyrir sig persónulega, hvernig þau hafa snert hann gegnum tíðina og segir sögur af því hvernig þau tengjast hans lífshlaupi.
Arnar segir sjálfur um kynni sín af ljóðlistinni að „ljóðið ratar til sinna og það á sannarlega við um mig. Ljóðið fann mig mjög ungan. Tónlist tungumálsins endurómar í ljóðinu – auk hugsunar og tilfinninga. Þannig er öll verund mannskepnunnar undir í knöppu formi margvíslegra mynda.“
Bókabæjunum austanfjalls er það sönn ánægja að geta boðið upp á viðburði sem tengjast ljóðinu og ljóðaupplestri. Aðgangur er ókeypis en tekið við frjálsum framlögum sem renna til Bókabæjanna. Léttar veitingar í boði Bókabæjanna.