Apinn Bóbó mættur aftur í Hveragerði

Bóbó mun bregða á leik fyrir nokkrar krónur, sem allar renna til Einstakra barna.

Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar er haldin í Hveragerði um helgina. Þessa helgi er algengt að brottfluttir Hvergerðingar heimsæki bæinn sinn og einn þeirra er apinn Bóbó, sem ætlar að halda til í Blómaborg um helgina.

Margir muna eftir Bóbó úr Eden á sínum tíma en um helgina mun hann bregða á leik fyrir gesti og gangandi í Blómaborg, fyrir nokkrar krónur sem allar renna til Einstakra barna. Nýir eigendur Blómaborgar, Áslaug Hanna og Jónas Sig verða með opið alla helgina og þar verður listsýning og fleira, auk okkar manns Bóbó. Þeir sem sáu leikritið um Elly Vilhjálms muna líka að lifandi apinn sem Elly flutti inn til Íslands endaði í Michelsen Blóm, sem nú er Blómaborg.

Ekki nóg með að Bóbó sé aftur mættur í heimabæinn heldur er einnig búið að opna tívolí í Hveragerði á nýjan leik. Þar er á ferðinni ferðatívolíið Taylors Tivoli, sem á reyndar mjög sterka tengingu við Hveragerði, því faðir núverandi framkvæmdastjóra Taylors keypti stærstu tækin úr Tívolíinu í Hveragerði þegar það lagði niður starfsemina. Mikið af þeim tækjum endaði í afþreyingargarði í Suður Afríku en klessubílarnir og hringekjan eru ennþá í þeirra eigu.

Fyrri greinÁrborg fór illa með Uppsveitir – Hamar tapaði
Næsta grein„Lítum okkur nær í Árborg okkar allra“