Anna Jóa – listamannsspjall og leiðsögn

Anna Jóa. Ljósmynd/Aðsend

Hvað má finna í fjöru og hvernig verður það kveikja að listaverki?

Sunnudaginn 20. október kl. 15 mun Anna Jóa, annar tveggja myndlistarmannanna sem á verk á sýningunni Heimurinn sem brot úr heild, ganga með gestum Listasafns Árnesinga í Hveragerði um sýninguna og segja frá verkum sínum sem ýmist eru teikningar, málverk, skúlptúrar, innsetningar eða ljóð.

Anna segir frá tilurð þeirra en í þeim er hún að fást við minningar, skynjun og staði en einnig tengsl sjálfsmyndar og umhverfis. Verk Önnu kallast á við verk myndlistarmannsins Gústavs Geirs Bollasonar. Sýningarstjóri er Jóhannes Dagsson.

Anna lauk myndlistarnámi hér heima og framhaldsnámi í Frakklandi en bætti síðan við námi í listfræði. Auk þess að sinna eigin myndlist hefur hún líka rekið sýningarrými, stundað kennslu og starfað við listgagnrýni. Anna býr og starfar í Reykjavík en á ættir að rekja til Hveragerðis. Hún á hús á Stokkseyri þar sem hún dvelur gjarnan og gengur þar um fjörur. Um tíma bjó hún á vesturströnd Kanada og gekk þar einnig fjörur og leitar því fanga bæði við Atlantshaf og Kyrrahaf.

Jóhannes sýningarstjóri hefur lýst sýningunni með eftirfarandi orðum: „Hér eru vísbendingar um heima sem eru persónulegir, heima sem innihalda aðrar athafnir en þær sem við erum vön að lifa, heima sem eru liðnir, heima sem hafa ekki ennþá hafist.“ Með spjalli Önnu er fólki boðið að koma, skoða og njóta sem og að eiga samtal við höfund verkanna.

Aðgangur að safninu er ókeypis og það eru allir velkomnir. Sýningin mun standa til 15. desember.

Fyrri greinLagningu jarðstrengs lokið á Kili
Næsta greinGul viðvörun: Stormur og rigning