Amilcar sýnir í Hveragerði

Fyrstur til að sýna verk sín í Bókasafninu í Hveragerði á þessu ári er Amilcar C. A. Sanches.

Amilcar er portúgalskur en hefur búið í Ölfusinu í tæplega tvö ár. Hann er einn af fastagestum bókasafnsins og þannig kom það til að hann sýnir þar.

Amilcar er að mestu sjálfmenntaður í myndlistinni. Hann segist hafa verið svo heppinn að kynnast góðu fólki og ýmsum listamönnum sem hafa veitt honum ómetanlegan innblástur. Amilcar hefur sótt myndlistarnámskeið í Portúgal og í Barcelona á Spáni, þar sem hann starfaði einnig á keramikverkstæði. Einnig hefur hann sótt keramiknámskeið við Myndlistarskóla Reykjavíkur.

Á sýningunni í bókasafninu eru ellefu myndir frá mismunandi tímum, unnar í mismunandi efni, og eru tvær þeirra nýlegar “collage” myndir. Einnig gefur að líta nokkra keramikmuni.

Sýningin er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14 og stendur til 20. febrúar.