Alvöru sveitadagur 27. maí

Laugardaginn 27. maí verður viðburðurinn Borg í sveit – alvöru sveitadagur haldinn í þriðja skipti í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þann dag munu fyrirtæki, bændur og einstaklingar í sveitarfélaginu taka höndum saman, hafa opið hjá sér og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Hægt verður að koma og skoða dýrin í sínu náttúrulega umhverfi í sveitinni, fara í golf á golfvöllunum í sveitarfélaginu, fá sér kaffi eða ís og skoða gróðrarstöðvar, en fjöldi fyrirtækja munu bjóða upp á skemmtileg tilboð þennan dag. Þá verður nóg um að vera í Félagsheimilinu Borg, en þar munu einstaklingar, fyrirtæki og verktakar í sveitinni kynna sig og selja varning frá kl. 11-16. Pizzavagninn verður á svæðinu allan daginn og selur rjúkandi pizzur á sérstöku tilboði.

Um kvöldið verða svo tónleikar í Félagsheimilinu Borg sem hefjast kl. 21:00. Eyþór Ingi, tónlistarmaður og skemmtikraftur mun þar stíga á svið, en viðburðurinn er hluti af tónleikaröð hans þar sem blandað er saman tónlist, gríni og eftirhermum eins og honum einum er lagið. Miðasala verður við inngang, en húsið opnar kl 20:30 og aðgangseyrir er 2500 kr. Þess má geta að nýtt hljóðkerfi var sett upp í Félagsheimilinu síðasta sumar.

Meira um þetta og allt hitt sem hægt er að gera, sjá og skoða í sveitinni á gogg.is og Facebook, en dagskráin mun birtast þar á næstu dögum.

Fyrri greinKarlakór KFUM í Skálholti
Næsta grein2,6 milljónum úthlutað úr Verkefnasjóði HSK