Alvöru Nashville stemning á Suðurlandi

Anna Hansen lofar alvöru Nashville stemningu á Suðurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Helgina 3.-4. maí verður sannkölluð Nashville stemning á Suðurlandi.

Tónleikarnir Nashville Nights verða haldnir föstudagskvöldið 3. maí á Sviðinu á Selfossi og 4. maí á Midgard Base Camp á Hvolsvelli. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem tónleikar af þessu tagi eru haldnir á Íslandi.

Á tónleikunum koma fram fjórir söngvarar og lagahöfundar frá Nashville í Bandaríkjunum ásamt sunnlensku söngkonunni og lagahöfundinum Önnu Hansen í svokölluðum Writers rounds. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Fríða Hansen, systir Önnu.

Önnu þarf vart að kynna fyrir lesendum sunnlenska.is en hún hefur verið að gera það gott með dönsku popphljómsveitinni Aqua en hún er ein af bakröddum hljómsveitarinnar. Með Nashville Nights tónleikunum er Anna svo að láta langþráðan draum rætast en hún þekkir vel til sambærilegra tónleika síðan hún dvaldi í Bandaríkjunum.

„Hugmyndin að þessum tónleikum er búin að vera í bígerð ansi lengi. Þetta byrjaði í rauninni allt með því, að ég fór til Bandaríkjanna að heimsækja vin minn Stefan Mørk árið 2017, sem bjó þá í Atlanta. Ég var þá búin að syngja fyrir hann nokkur demo og í þessari ferð vorum við bæði að semja saman og svo keyrðum við upp til Nashville í nokkra daga. Ég kolféll fyrir borginni og allri tónlistinni þar, borgin er byggð upp á lagahöfundum og listamönnum, og það er tónlist úti um allt,“ segir Anna í samtali við sunnlenska.is.

„Öll kvöld vikunnar eru svokölluð Writers rounds út um alla borg á mismunandi stöðum, sem er í rauninni svona open mic session með frumsaminni tónlist, þar sem lagahöfundum og tónlistarfólki gefst færi á að koma fram og kynna tónlistina sína.“

„Margir Íslendingar þekkja kannski sjónvarpsþættina Nashville, sem voru leiknir þættir sem fjölluðu um tónlistarfólk í Nashville. Staðurinn Bluebird kom mikið fram þar, sem er einn frægasti staðurinn fyrir Writers rounds og margar stjörnur, eins og til dæmis Taylor Swift byrjuðu feril sinn þar.“

Söngkonan Anna Hansen. Ljósmynd/Aðsend

Vinátta sem vatt upp á sig
Anna segir að Stefan hafi í kjölfarið svo kynnst Blue Foley, lagahöfundi sem býr í Nashville, og þeirra vinátta er upphafið á þessu Nashville Nights ævintýri.

„Árið 2018 voru fyrstu tónleikarnir haldnir í Danmörku, þar sem Blue og Stefan ásamt einni tónlistarkonu í viðbót héldu tónleika og núna nokkrum árum seinna er þetta orðið að nokkrum stærri árlegum tónleikaröðum með fólki frá Nashville, sem og stórri tónlistarhátíð í Odense á ári hverju.“

„Núna hef ég líka farið til Nashville fjórum sinnum í viðbót til að sækja innblástur og semja lög með fólki þar og þar hefur Blue hjálpað mér alveg ótrúlega mikið, hefur kynnt mig fyrir frábæru tónlistarfólki og sett mig í herbergi með fólki til að semja lög.“

„Hans stærsti draumur hefur svo alltaf verið að koma til Íslands, þannig nú fæ ég loksins að láta þann draum rætast fyrir hann, sem laun fyrir alla greiðana sem hann hefur gert mér.“

(F.v.) April Cushman, Blue Foley, Anna og Anders Bo, kærasti Önnu, eftir að hafa samið lag saman í Nashville fyrir ári síðan. Ljósmynd/Aðsend

Vonandi fyrsta skiptið af mörgum
Anna sér um að skipuleggja tónleikana á Íslandi ásamt Fríðu systur sinni og Blue. „Draumurinn er svo að reyna að byggja þetta upp eins og í Danmörku, ef grundvöllur er fyrir því hérna heima, þannig að þetta verður vonandi bara fyrsta skiptið af mörgum. Við fengum líka styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands til að halda þetta og erum alveg ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn.“

Á tónleikunum koma fram Blue Foley, April Cushman, Matt Rogers og Kara Tondorf, sem eru öll frá Bandaríkjunum og svo systurnar Anna og Fríða frá Leirubakka í Landsveit. „Einnig verður Alexander Freyr frá Selfossi með okkur systrum á gítar og sagan segir að hann muni jafnvel koma fram með nokkur frumsamin lög sjálfur.“

„Þau fjögur sem koma frá USA eru öll búin að vinna sem tónlistarfólk í mörg ár, hafa unnið með mörgum frægum nöfnum og hafa sum verið tilnefnd til Grammy verðlauna, selt lög í sjónvarpsþætti og unnið verðlaun. Topp talentar hér á ferð,“ segir Anna sem er orðin mjög spennt fyrir tónleikunum.

Farið í gegnum allan tilfinningaskalann
Nashville Nights tónleikarnir eru byggðir upp í ekta Nashville Writers round stíl. „Þá eru þrír til fjórir lagahöfundar á sviðinu samtímis, skiptast á að spila lögin sín og segja áhorfendum sögur þess á milli. Það getur verið allt frá sögum um það hvernig lögin urðu til, eða bara sögur úr þeirra eigin lífi eða úr bransanum.

„Stemningin sem skapast á svona tónleikum er alveg einstök og ég þekki engan sem hefur farið á svona kvöld og ekki fundist geggjað. Það er bæði lög sem framkalla gæsahúð, það verður hlegið, grátið og farið gegnum allan tilfinningaskalann. Ég hvet fólk eindregið til að mæta, þið munuð ekki sjá eftir því,“ segir Anna og leggur áherslu á orð sín.

Anna lofar geggjaðri stemningu á Nashville Nights. Ljósmynd/Aðsend

Vonast til að semja nokkur lög
Anna hefur sent frá sér tvö lög sem má finna á öllum helstu streymisveitum, lögin Home og Grace. Auk þess samdi hún Landsmótslagið fyrir Landsmót hestamanna árið 2022 ásamt Fríðu systur sinni, sem Fríða flutti ásamt Hreimi Erni Heimissyni. Anna er með kollinn fullan af lögum sem bíða eftir að verða tekin upp. „Ég gaf sjálf síðast út tónlist fyrir næstum því þremur árum síðan og er með fullt af nýjum lögum sem ég er að byrja að taka upp og hlakka til að spila fyrir áhorfendur á tónleikunum.“

Systurnar Fríða og Anna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er alveg ótrúlega spennt að kynna þetta fyrir fólkinu heima. Og ekki minna spennt sýna Ameríkönunum fallega landið okkar. Við verðum með aðsetur hjá mömmu og pabba á Hótel Leirubakka og það verða vonandi samin eitt til tvö lög á meðan dvölinni stendur líka.“

„Ef svo fer að fólk kemst ekki á Sviðið á föstudagskvöldinu, þá endurtökum við leikinn á Midgard Base Camp á Hvolsvelli daginn eftir. Hlakka til að sjá ykkur sem flest,“ segir Anna kát að lokum.

Viðburðurinn á Facebook

Instagram-síða Önnu Hansen

Fyrri greinGrýlupottahlaup 4/2024- Úrslit
Næsta greinHandtóku mann eftir ölvunarakstur á Vatnajökli