
Tryggvi Sigurður Bjarnason frá Hvolsvelli svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Trúlega skröggur að mati almennings.
Uppáhalds jólasveinn? Ég geri ekki upp á milli bræðra minna.
Uppáhalds jólalag? O Holy Night í flutningi Jussi Bjorling
Uppáhalds jólamynd? Jólaósk Önnu Bellu.

Uppáhalds jólaminning? Er því miður með plokkfiskaminni þannig að það er pass við þessu.
Uppáhalds jólaskraut? Það var jólastjarnan sem ég klifraði á hverju ári með upp í ca. 15-20m hátt grenitré. En eftir að ég var ekki viss um hvort ég myndi rata ef ég dytti þá er það Grýla sem ég bjó til og set upp fyrir hver jól. Aðallega fyrir leikskólabörnin sem koma alltaf að kíkja á hana.
Minnistæðasta jólagjöfin? Geri helst ekki upp á milli en teiknimyndasögurnar skora hátt.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Panta snjó, þrífa kristalsljósakrónurnar og alþrif á heimilisbílunum.
Hvað er í jólamatinn? Það hefur verið hangilæri á beini eða hamborgarhryggur.
Ef þú ættir eina jólaósk? Öfuga græðgisvæðingu sem myndi leiða til meiri friðs og hamingju.