Alþjóðleg stuttmyndahátíð flytur á Stokkseyri

Stuttmyndahátíðin Northern Lights – Fantastic Film Festival verður haldin á Stokkseyri í lok október. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tvö vel heppnuð ár á Akureyri flytur stuttmyndahátíðin Northern Lights – Fantastic Film Festival á Suðurland. Hátíðin verður haldin í þriðja sinn dagana 30. október til 2. nóvember á Stokkseyri.

Hátíðin verður haldin í menningarverstöðinni á Stokkseyri, í húsinu sem áður hýsti Draugasetrið og Álfa-, trölla- og norðurljósasafnið. Þar ætlar hátíðin að halda áfram að byggja brú milli fortíðar og framtíðar, þjóðsagna og kvikmynda, enda eitt af aðalmarkmiðum hátíðarinnar að hvetja kvikmyndahöfunda til að nýta sér íslenskan þjóðsagnararf í verkum sínum.

Í tilkynningu frá hátíðarhöldurum kemur fram að ákvörðunin um að flytja hátíðina frá Akureyri til Stokkseyrar sé m.a. liður í því að gera hana aðgengilegri kvikmyndanemum sem og alþjóðlegum gestum hátíðarinnar.

Óskarsverðlaun í hús!
Það er óhætt að segja að hátíðin hafi nú þegar unnið sér inn vinsældir og virðingu „fantastic“ kvikmyndahöfunda um allan heim. Í fyrra fékk hátíðin sendar inn fjölda mynda frá 31 landi en 47 myndir frá 22 löndum voru valdar  til þátttöku á hátíðinni. Þar á meðal var hollenska myndin I Am Not a Robot eftir Victoriu Warmerdam sem hreppti í kjölfarið Óskarsverðlaunin sem besta leikna stuttmynd síðasta árs.

Einnig voru sýndar nýjar myndir frá Óskarstilnefndum höfundum eins og heiðursgesti hátíðarinnar, John R. Dilworth (Courage the Cowardly Dog) og Abigale Breslin (Little Miss Sunshine) sem og hinum þrefalda Emmy-verðlaunaða leikstjóra og stop-motion kvikara Michael Granberry, en verk hans má sjá í kvikmyndum eins og hinni Óskarsverðlaunuðu Pinocchio eftir Guillermo del Toro.

Brautryðjandinn og Óskarstilnefndi kvikarinn John R. Dilwort var heiðursgestur hátíðarinnar í fyrra og fetaði hann þar í fótspor Christopher Newman, framleiðanda Game of Thrones og Lord of the Rings – Rings of Power, sem var heiðursgestur hátíðarinnar árið 2023.

Nýr verðlaunaflokkur
Í samstarfi við Nexus var ákveðið að fjölga verðlaunum og búa til nýjan verðlaunaflokk fyrir „animation/stopmotion“ myndir, enda hafa þær verið gríðarlega sterkar í dagskrá hátíðarinnar fyrstu tvö árin. Einnig var ákveðið að verðlaunafé yrði hækkað úr 1.000 evrum í 1.500 evrur.

Yfir 40 stuttmyndir verða á dagskrá hátíðarinnar í ár en meðal annarra viðburða á hátíðinni má nefna pallboð, handritasmiðju, meistaraspjall, sérstakar sýningar, Fantastic Film Pub-Quiz, hrekkjavökubúningaball og margt fleira.

Heimasíða hátíðarinnar

Fyrri greinSókn hins heilaga kross stofnuð á Selfossi
Næsta greinGeðlestin á Hvolsvelli á þriðjudagskvöld