Alltaf svo hátíðlegt þegar pabbi opnaði jólakortin og las upphátt

Birna Viðarsdóttir.

Birna Viðarsdóttir á Norður-Hvoli í Mýrdal svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Já, ætli ég segi ekki bara að ég sé meiri jólaálfur.

Uppáhalds jólasveinn? Það er hann Stúfur litli.

Uppáhalds jólalag? Þessari spurningu er erfitt að svara, en til að nefna eitthvað, segi ég Hin fyrstu jól. Svo hefur mér alltaf fundist Ég sá mömmu kyssa jólasvein og Jólahjól skemmtileg og komið mér í smá jólagír.

Uppáhalds jólamynd? The Holiday.

Uppáhalds jólaminning? Jólaminningarnar eru margar og góðar. Þegar ég var krakki fannst mér alltaf svo hátíðlegt – eftir að hafa borðað jólamatinn og opnað pakkana – þegar pabbi opnaði jólakortin og las upphátt.

Uppáhalds jólaskraut? Uppáhalds jólaskrautið er kirkjan sem Ásta systir mín gaf mér fyrir svona 40 árum.

Uppáhalds jólaskrautið er kirkjan sem Ásta systir mín gaf mér fyrir svona 40 árum.

Minnistæðasta jólagjöfin? Líklega er eftirminnilegasta jólagjöfin falleg, græn skólataska. Ég hef þá verið um 10-11 ára. Það voru blendnar tilfinningar því mér þótti svo vænt um gömlu skólatöskuna mína (stundum þykir mér svo vænt um hluti, haha!).

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Ég er nú svo gamaldags að ég þarf helst að „hreingera“ og baka margar sortir. Líka að skrifa á mörg jólakort og senda í allar áttir, helst að útbúa þau sjálf. Því miður er þessi siður liðin tíð.

Hvað er í jólamatinn? Hamborgarhryggur og tilheyrandi meðlæti, heimagerður ís og heit súkkulaðisósa í eftirrétt.

Ef þú ættir eina jólaósk? Það væri nú hvorki meira né minna en alheimsfriður – friður á jörð.

Fyrri greinMjúk lokun á Hellisheiði og í Þrengslum
Næsta greinBjörgunarsveitir aðstoðuðu ökumenn í Þingvallasveit