„Allt of mörg skáld ofan í skúffu“

Harpa Rún og Jón Özur eru kynnar kvöldsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Viðburðurinn Heims um ljóð verður haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi þann 20. febrúar næstkomandi og er nú leitað að ljóðskáldum á Suðurlandi til að taka þátt.
 
Heims um ljóð er hluti af alþjóðlegu verkefni sem er skipulagt af World Poetry Movement. Hugmyndin er að halda viðburði þar sem lesin eru ljóð gegn múrum og hindrunum um allan heim og nú þegar hafa rúmlega 120 lönd skráð þátttöku,“ segir Harpa Rún Kristjánsdóttir, ein þeirra sem skipuleggur viðburðinn hjá Bókabæjunum austan fjalls.
 
„Forstöðumaður þessarar stofnunar heitir Fernando Rendón og er Kólumbíumaður. Hann leitaði til ljóðskálda vítt og breitt til að fá þau til að taka þátt í þessu. Eitt þeirra er Linda Vilhjálmsdóttir, sem sér um viðburðinn í Reykjavík þann 24. febrúar. Okkur í Bókabæjunum langaði til að leggja þessu verkefni lið, og virkja um leið ljóðskáldin hér á svæðinu – sem eru fjölmörg og alltof mörg ofan í skúffunum ennþá,“ bætir Harpa Rún við.
 
„Þessvegna erum við að safna liði, til að sýna samstöðu og lesa ljóð, því hvað er betra en það? Lifi byltingin!“
 
Þau sunnlensku skáld sem vilja taka þátt í viðburðinum, sama hvort um er að ræða skúffuskáld eða ekki, geta haft samband við Hörpu Rún á netfangið harparunholum@gmail.com, eða á Facebook og jafnvel þar sem hana er að finna.
 
Ljóðlistin er til þess að útrýma veggjum
„Í heimsmynd okkar er víða að finna veggi, sem byggðir eru til að skilja fólk að. Steypuveggir, vírveggir og ósýnilegir veggir byggðir með peningum og misrétti. Skáldin sem taka þátt í heims um ljóð hreyfingunni standa fyrir heim án hindrana og misréttis á grundvelli kynþáttar, þjóðernis, kynferðis, félagslegrar stöðu eða trúar. Ljóðlistin er til þess að útrýma veggjum, veggjunum á milli okkar og innra með okkur,“ segir í fréttatilkynningu Heims um ljóð.
 
Fyrri greinHaukarnir sterkari í seinni hálfleik
Næsta greinSparibolladagur á bókasafninu