Allt í blóma um helgina

Stærstur hluti dagskrárinnar fer fram í Lystigarðinum í Hveragerði. Ljósmynd/Allt í blóma

Það verður mikið um dýrðir í Hveragerði um helgina en þá fer fram fjölskyldu-, menningar- og tónlistarhátíðin Allt í blóma.

Í kvöld opnar Skyrgerðin dyr sínar með pubquizi og trúbador en aðaldagskrá hátíðarinnar er á laugardag þar sem öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi.

Lystigarðurinn verður undirlagður á laugardaginn og þar er frítt inn á alla dagskrána. Þar verður meðal annars hinn geysivinsæli markaður, barnadagskrá með Lalla töframanni, Tónafljóð, trúðum, andlitsmálningu, hoppusköstulum, loftboltum og mörgu fleira.

Suðurlandsdjazzinn verður á sínum stað kl. 15 en þar kemur fram Unnur Birna ásamt hljómsveit.

Stórtónleikar hátíðarinnar eru síðan kl. 20 á laugardagskvöld með engum smá skemmtikröftum en þar stíga á stokk Birgitta Haukdal, Stefán Hilmarsson, Sigga Beinsteins og Pálmi Gunnarsson. Að tónleikum loknum færist dagskráin inn í tjaldið þar sem Sverrir Bergmann, Unnur Birna og fleiri halda uppi miklu stuði fram á nótt.

Hátíðinni lýkur svo á sunnudagskvöld með tónleikum KK í þægilegu umhverfi Reykjadalsskála kl. 20. Miðasala á tónleikana er á tix.is.

Fyrri greinJarðskjálfti í Lambafelli
Næsta greinFjölbreytt dagskrá á Bryggjuhátíðinni