„Allir finni sér eitthvað við sitt hæfi“

Bragi Bjarnason (t.v.) og Ólafur Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúi Árborgar, hafa unnið að skipulagningu á menningarmánuðinum október. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag hefst Menningarmánuðurinn október í Sveitarfélaginu Árborg en þetta er í tíunda skipti sem þessi hátíð fer fram og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari.

 „Menningarmánuðurinn október var fyrst haldinn árið 2010 og var hugarfóstur þáverandi formanns menningarnefndar, Kjartans Björnssonar. Hátíðin er því haldin í tíunda skipti nú í ár,“ segir Bragi Bjarnason, deildarstjóri menningar- og frístundadeildar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

 „Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar samþykkti árið 2010 að halda menningarkvöld í október þetta sama ár til heiðurs fjórum einstaklingum sem höfðu lagt sitt til sögu svæðisins; Páli Ísólfssyni, Tryggva Gunnarssyni, Sigurjóni Ólafssyni og Páli Lýðssyni. Október varð fyrir valinu þar sem þetta var frekar rólegur mánuður í viðburðum. Kom á eftir sumrinu og jólahátíðin ekki komin í gang,“ segir Bragi, aðspurður afhverju október hafi orðið fyrir valinu frekar en einhver annar mánuður til að halda þessa hátíð.

Sérlega fjölbreytt dagskrá í ár
Bragi segir að hátíðin hafi haldið mjög vel í þau grunngildi sem lagt var af stað með í upphafi. „Það er að kynna sem best sögu og menningu svæðisins með fjölbreyttum viðburðum og reyna eftir fremsta megni að hafa þá án endurgjalds. Sveitarfélagið hefur sjálft séð um skipulagningu ákveðinna viðburða á hverju ári en svo hafa einstaklingar, fyrirtæki og frjáls félagasamtök geta sett inn viðburði í dagskrá mánaðarins. Núna í ár hafa aldrei verið jafn margir viðburðir á dagskrá mánaðarins eða um tuttugu talsins.“

„Dagskráin í ár er mjög fjölbreytt og ættu allir að finna sér eitthvað við sitt hæfi. Menning í sínum víðasta skilningi fær að njóta sín fyrir alla aldurshópa,“ segir Bragi.

„Hátíðin er fyrir alla og reynt er að setja upp fjölbreytta flóru viðburða svo allir finni sér eitthvað við sitt hæfi. Markmiðið er ekki endilega að gestir hátíðarinnar fari á alla viðburðina heldur frekar að hver og einn finni það sem honum langar að sjá eða gera,“ segir Bragi að lokum.

Hægt er að kynna sér dagskrá hátíðarinnar hér.

Fyrri greinEkki staldra neitt við Múlakvísl
Næsta greinLionsklúbbur Selfoss gaf stóla og tæki á HSU