Alexander endurtekur jólaósk sína

Frá tónleikunum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Miðvikudaginn 17. desember mun Alexander Freyr Olgeirsson, tónlistarmaður og hlaðvarpsstjórnandi, halda góðgerðartónleika í Tryggvaskála á Selfossi.

Tónleikana, sem bera heitið Jólaósk Alexanders, heldur hann til styrktar Barnaspítala Hringsins. Er þetta í annað sinn sem hann heldur góðgerðartónleika af þessu tagi.

„Tónleikarnir í fyrra fóru alveg fram úr mínum björtustu vonum. Það seldist mjög hratt upp og stemningin sem myndaðist var svo létt og skemmtileg,“ segir Alexander í samtali við sunnlenska.is.

Mikilvægur þáttur í að komast í alvöru jólaskap
Alexander segir að honum finnist jóla spilamennska vera stór partur af aðventunni og jólaundirbúningnum. „Ég hef tekið þátt í einhverskonar jólaspileríi í mörg ár, annað hvort með öðrum eða sjálfur. Það hafa komið ár þar sem ég geri ekkert slíkt og þá sakna ég þess alveg gífurlega. Þannig að til þess að komast í alvöru jólaskap þá finnst mér þetta mjög mikilvægur þáttur í því.“

„Það er líka svo gaman að fá vini sína til að koma og spila og syngja, fá alla tónleikagestina á sama stað og þar að auki að styrkja gott málefni í leiðinni. Það er eitthvað svo sérstök stemning sem myndast. Tryggvaskáli er líka svo notalegur tónleikastaður. Ég stefni á að hafa þetta árlegt, miðað við viðtökurnar í fyrra og í ár þá sé ég fram á að þetta muni bara stækka og dafna.“

Alexander Freyr Olgeirsson. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Valinkunnir listamenn með í för
Á tónleikunum verður fjöldi listamanna Alexander til halds og trausts. „Þau sem koma fram með mér eru vinir mínir sem ég hef verið að spila með síðustu ár. Ívar Daníels, Fríða Hansen og Elfa Björk systir mín munu koma fram og syngja með mér vel valin jólalög.“

„Sunnlenskar raddir munu taka þátt í tónleikunum og syngja bæði ein og sér en líka ásamt öðrum. Anton Guðjónsson mun spila á gítar með mér og svo Gunnar Guðni Harðarson á fiðlu í nokkrum lögum. Stefán Þorleifsson stjórnar kórnum og spilar á píanó.“

Lög sem koma fólki i jólaskap
Lögin sem eru leikin á tónleikunum eru vandlega valin af Alexander. „Ég hef mjög sterkar skoðanir á jólalögum og hlusta mikið sjálfur. Ég byrja alltaf að hlusta í nóvember. Lögin á tónleikunum verða allt jólalög sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér sem ég hef valið sérstaklega fyrir tónleikana. Það eru reyndar nokkur lög á listanum sem einhverjir myndu kalla áramótalög eða þjóðlög. En ef lagið kemur mér í jólaskap þá læt ég það sleppa, já eða bæti við jólabjöllum í undirspilið.“

„Þess má geta að við Karitas Harpa vorum að gefa út jólalag saman. Lagið heitir Jólanótt og er erlent lag eftir Toby Fox úr tölvuleiknum Undertale. Textann samdi ég sjálfur og fjallar um fyrstu jólin sem foreldri og hvernig jólin öðlast nýja þýðingu eftir sem árin líða. Lagið er á öllum streymisveitum.“

Árið 2021 gáfum við Karitas Harpa út jólaplötuna Jólastund sem er lifandi flutningur af vel völdum jólalögum. Þar að auki hef ég verið að vinna í playlista á Spotify undir nafninu Sunnlensku jólalögin þar sem ég hef verið að safna saman jólalögum sem eru flutt eða samin af sunnlensku tónlistarfólki.

Húsið opnar klukkan 20:00 og hefjast tónleikarnir klukkan 20:30. Miðasala fer í gegnum Alexander Frey í facebook skilaboðum eða email alexanderfreyr91@gmail.com. Miðaverð er 4.500 krónust og sem fyrr segir fer allur ágóðinn til Barnaspítala Hringsins.

Facebook-viðburður tónleikanna.

Fyrri greinHátíðlegir jólatónleikar í Selfosskirkju
Næsta greinTóm&Sjerrí í Þorlákskirkju á sunnudaginn