Aldar vígsluafmælis Akureyjarkirkju minnst

Á þessu ári eru liðin 100 ár frá vígslu Akureyjarkirkju í Vestur-Landeyjum. Tímamótanna verður minnst með hátíðarguðsþjónustu í Akureyjarkirkju sunnudaginn 7. október kl. 14.

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir mun prédika og sóknarpresturinn, séra Önundur S. Björnsson, þjóna fyrir altari. Kirkjukór Landeyja syngur undir stjórn Haraldar Júlíussonar organista.

Að lokinni guðsþjónustu verður samkoma í félagsheimilinu Njálsbúð í boði sóknarnefndar þar sem saga kirkjunnar verður rakin. Kvenfélagið Bergþóra sér um veitingar. Sóknarbörn fyrr og síðar og allir aðrir velunnarar kirkju og kristni eru velkomnir.

Í Akurey hafði ekki verið kirkja áður en sú sem þar nú stendur var reist. Eftir að Voðmúlastaðasókn var lögð niður árið 1910 og bæir þeir í Vestur – Landeyjum sem sókn áttu að Voðmúlastöðum og Krossi færðust til Sigluvíkursóknar, var ákveðið að byggja nýja kirkju og henni þá valinn staður í Akurey og nýja sóknin nefnd Akureyjarsókn.

Áður hafði kirkjan verið að Skúmsstöðum og er hennar getið á 12. öld. Árið 1815 var kirkjan flutt að Sigluvík og stóð þar til ársins 1912. Auk Skúmsstakirkju voru kirkjur fyrr á öldum í Vestur – Landeyjum, í Eystra- og Vestra – Fíflholti og bænhús var á Álfhólum.

Árið 2009 ákvað Kirkjuþing breytingu á sóknaskipan Akureyjarsóknar þar sem Bakkabæir í Oddasókn færðust til Akureyjarsóknar. Þá ákvað kirkjuþing einnig að leggja Holtsprestakall niður og að Landeyjasóknir færðust til Breiðabólstaðarprestakalls. Sú breyting tók gildi um áramótin 2010 og 2011.

Akureyjarirkja er byggð eftir teikningum Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts. Yfirsmiður var ráðinn Tryggvi Árnason kirkjusmiður úr Reykjavík en honum til aðstoðar var Skúli Jónsson trésmiður. Kirkjan var vígð 20. október 1912 af Kjartani Einarssyni prófasti í Holti.

Frá upphafi hefur kirkjunni og umhverfi hennar verið vel við haldið. Síðustu endurbætur voru árið 2009 en þá var kirkjan máluð að utan og nú í sumar var tréverk umhverfis kirkjugarðinn málað. Verkið var unnið í sjálfboðavinnu af 26 skátum frá Belgíu. Auk þessa gróðursettu þeir um 1.000 trjáplöntur við félagsheimilið Njálsbúð sem er í næsta nágrenni. Framundan eru endurbætur af ýmsum toga.

Í sóknarnefnd Akureyjarkirkju eru Haraldur Júlíusson Gilsbakka 35 Hvolsvelli, Ragnheiður Jónsdóttir Vestra – Fíflholti og Þóra Gissurardóttir Eystra – Fíflholti. Í varastjórn eru Sigríður Valdimarsdóttir Álfhólum, Svanhildur Guðjónsdóttir Grímsstöðum og Þorsteinn Markússon Eystra – Fíflholti. Meðhjálpari og hringjari er Brynjólfur Bjarnason Lindartúni.

Haraldur Júlíusson

Fyrri greinSettu met á vinsældarlistanum
Næsta greinPétur Örn: Vegurinn eilífi eða vottunarferli ESB