Aldamótahittarar Einars Bárðar á Sviðinu

Magni, Gunnar og Einar eru miklu meira en spenntir fyrir kvöldinu. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingurinn Einar Bárðarson verður með tónleika á Sviðinu á Selfossi fimmtudagskvöldið 24. febrúar. Hann verður ekki einn á ferð, því Gunnar Ólason úr Skítamóral og Magni „okkar“ Ásgeirsson verða með honum á sviðinu.

„Ég hlakka mikið til, ég hef gert svona áður en þá vorum við fjórir lagahöfundar saman en núna er ég bara í frekjukasti og það verða bara spiluð lög eftir mig. Ég held að lagalistinn sé eitthvað um átján lög,“ segir Einar þegar hann er spurður út kvöldið.

„Ég lofa fólki sem á annað borð hefur gaman af lögunum mínum að það verður mjög gaman. Sögurnar á bak við lögin fá smá svigrúm en þvælast ekki fyrir lögunum,“ bætit Einar við.

Samanlagt hafa Gunnar Ólason og Magni Ásgeirsson sungið flest af vinsælustu lögum Einars. Þannig eru hæg heimatökin þegar þeir þrír leiða saman hesta sína. Skemmtanagildið mun þó örugglega rísa hæst þegar þeir félagar skauta í gegnum vinsælustu lögin sem Einar samdi fyrir Nylon flokkinn.

Miðasala á tónleikana á Sviðinu er hafin og miðarnir rjúka út á tix.is.

Fyrri greinTíu héraðsmet á MÍ öldunga
Næsta greinÞorvaldur Gauti bætti 36 ára gamalt met