Áin sem um eilífð streymir . . .

Í tilefni af vorhátíð í sveitarfélaginu Árborg efndi Sunnlenska bókakaffið til ljóðasamkeppni þar sem yrkisefnið var Selfoss.

Dómnefnd skipuð þeim Elínu Gunnlaugsdóttur bóksala og íslenskufræðingunum Gylfa Þorkelssyni og Jóni Özuri Snorrasyni hefur nú lokið störfum og var samdóma í því áliti að besta ljóðið væri Selfossljóð Æskuláps sem hér fylgir.

Höfundar skiluðu ljóðum sínum inn undir dulnefni og bakvið nafnið Æskulápur leyndist hagyrðingurinn Kristján Runólfsson í Hveragerði. Aðrir höfundar sem komu sterklega til greina voru Sigfinnur Sigurðsson og Guðrún Guðmundsdóttir, bæði búsett á Selfossi.

Ljóð Kristjáns er svohljóðandi:

Selfoss

Hér er fögur byggð við brúna,
á bökkum fljóts sem ásýnd hefur,
frjósemd hinna fornu túna,
farsælt mannlíf af sér gefur.
Áin sem um eilífð streymir,
ætíð vökvar rós á bakka,
okkar framtíð áfram teymir,
öll er byggðin henni að þakka.