Áin og fjallið í Listagjánni

Hallgrímur P. Helgason hefur opnað ljósmyndasýningu í Listagjánni á Selfossi. Þrátt fyrir að Sumar á Selfossi hafi verið aflýst heldur bókasafnið í hefðina og opnar nýja sýningu í Listagjánni.

Hallgrímur er fæddur í Reykjavík og bjó þar og í Kópavoginum og vann alla tíð við sitt fag sem prentsmiður. Hann fékk sína fyrstu myndavél í jólagjöf þegar hann var sjö ára gamall og áhuginn á ljósmyndun hefur ekkert minnkað síðan. Hann og konan hans fluttu hingað á Selfoss þegar þau hættu að vinna og eins og Hallgrímur segir „blasir Ingólfsfjallið við mér út um gluggann þar sem ég bý og verður því viðfang margra mynda þegar birtan eða myrkrið heillar. Það þarf því ekki að elta myndefnið langt með Ölfusána rétt innan seilingar“.

Meðlimir í Facebookhópnum Íbúar á Selfossi hafa notið mynda Hallgríms að undanförnu og þótti starfsmönnum bókasafnsins tímabært að hann héldi sína fyrstu einkasýningu og úr varð að hún er opnuð í Listagjánni í dag.

Sýningin verður opin til 5. september á sama tíma og bókasafnið, frá 9-18 virka daga og frá 10-14 á laugardögum.

Hallgrímur með fyrstu myndavélina árið 1959. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBlómlegt menningarstarf að Kvoslæk
Næsta greinUnnið að endurbótum í Laugaskarði í vetur