Áhorfendur fá magavöðva úr marmara

Leikhópurinn Brotinn vasi frumsýnir nýtt íslenskt leikrit, Litla París, eftir Teit Magnússon í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi á föstudaginn, þann 13. september.

Sex leikarar taka þátt í sýningunni, meðal annars höfundurinn Teitur og leikstjórinn Viktor Ingi Jónsson.

„Ég byrjaði að skrifa verkið fyrir akkúrat ári síðan og svo hefur þetta undið smátt og smátt upp á sig. Við Viktor tókum báðir þátt í sýningu Leikfélags Selfoss á Þreki og tárum og þá fór ég að sjá þetta meira fyrir mér og dró Viktor með mér inn í þetta,“ segir Teitur en þetta er frumraun hans í leikritaskrifum. Tónlistin í verkinu er eftir Teit og Hafþór Ragnar Unnarsson, sem einnig er meðal leikenda í sýningunni.

Verkið fjallar um par sem fer í ferðalag til Parísar og lendir í miklum hremmingum. Hótelið sem þau áttu bókað herbergi er brunnið til kaldra kola og þau enda á hóteli langt frá miðbænum þar sem mjög undarlegt fólk er að reyna að halda rekstrinum gangandi.

„Þetta er hádramatískur sálfræðifarsi, grín og gaman út í gegn. Þetta er bara tilraunastarfsemi hjá okkur. Okkur langaði að sjá hversu langt við kæmumst með þetta og nú er bara að koma að frumsýningu,“ segir leikstjórinn Viktor Ingi. „Það er frábært að geta frumsýnt föstudaginn þrettánda. Við áætlum aðeins tvær sýningar til að byrja með og sjáum svo til. Áhorfendur eiga vonandi eftir að veltast um af hlátri í einn og hálfan tíma og enda með magavöðva sem virðast vera meitlaðir í marmara.“

Leikhópurinn Brotinn vasi á Facebook

Fyrri greinAllt sem hugurinn girnist í Nytjamarkaðnum
Næsta greinFrábær ferð til Ítalíu