Ágúst er „Á leiðinni“

Ágúst „á leiðinni“ um Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd/Jóndís Inga Hinriksdóttir

Söngvarinn Ágúst Þór Brynjarsson sendi frá sér nýtt lag nú á miðnætti sem heitir Á leiðinni.

Ágúst hefur haft í ýmsu að snúast síðustu mánuði, hann söng með Stuðlabandinu í vetur og tók þátt í Söngvakeppninni auk þess sem hann hefur komið víða við í sjónvarpi og auðvitað tónlistinni.

Á leiðinni, fjallar bæði persónulega um síðustu mánuði hjá mér, þar sem hef verið mikið á flakkinu milli landshluta og einhvern veginn er ég alltaf á leiðinni eitthvert, og einnig fjallar það um tilfinninguna sem allir kannast við, að vera elta draumana sína og þurfa fórna einhverju eða missa af, þú ert að leggja svo hart að þér en værir alveg til í að geta verið líka heima með fjölskyldu og vinum,“ segir Ágúst en lagið samdi hann daginn fyrir þriggja ára afmæli sonar síns.

„Ég var þá að fara að missa af afmælinu út af óveðri. Öll flug lágu niðri og ég í bænum að spila og var ekki að fara komast heim í afmælið hjá stráknum mínum. Sem betur fer náði ég síðasta fluginu heim áður en óveðrið skall á og ég komst heim í tæka tíð,“ segir Ágúst brosandi.

Ljósmynd/Jóndís Inga Hinriksdóttir

„Tilfinningin að vera einhvers staðar, en samt að drífa sig á næsta stað, geta margir tengt við þar sem við Íslendingar erum til dæmis alltaf að flýta okkur og í kappi við tímann eða næstu verkefni. Ég get svo sannarlega tengt við það að reyna halda mörgum boltum á lofti, og því kom textinn að þessu lagi bara flæðandi upp úr mér,“ bætir Ágúst við.

Frumflytur nýtt lag á Norðurálsmótinu
Á leiðinni er þriðja lagið sem Ágúst gefur út á þessu ári en hin eru Söngvakeppnislagið Eins og þú og dúettinn Bara ef þú vissir sem hann gaf út í vor með Klöru Einarsdóttur. Nýja lagið samdi hann sjálfur ásamt Hákoni Guðna Hjartarsyni. Halldór Gunnar Fjallabróðir spilar á gítar í laginu, sem er mixað af Sæþóri Kristjánssyni og masterað af Ben Pramuk.

Það er ýmislegt framundan hjá Ágústi í sumar en hann gefur út annað lag í næstu viku með Jóni Jónssyni, fyrir Norðurálsmótið í knattspyrnu. Lagið er samið af Jóni og flutt af Ágústi og það verður frumflutt á setningarhátíð mótsins á Akranesi þann 21. júní og kemur á Spotify föstudaginn 13. júní.

Fyrri greinViðgerð á Hvolsvallarlínu lokið
Næsta greinElísabet Jökuls sýnir á bókasafninu