Afmælistónleikar Jóns Kr. í kvöld

Söngvarinn og safnstjórinn Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal varð sjötugur 22. ágúst sl. og af því tilefni verða stórtónleikar í FÍH-salnum í Reykjavík í kvöld.

Jón fagnaði afmælisdeginum á Suðurlandi og borðaði kvöldverð í Kaffi Eldstó á Hvolsvelli með nokkrum vinum að vestan sem nú búa á Suðurland.

Í tilefni afmælis Jóns Kr. verða haldnir stórtónleikar í FÍH-salnum í Reykjavík í kvöld, laugardagskvöldið 25. september kl. 20:30. Fjöldi landsfrægra tónlistarmanna og kóra heiðra Jón Kr. með nærveru sinni. Fram koma: Guðlaug Helga Ingadóttir, Selfyssingurinn Gissur Páll Gissurarson, Anna Sigríður Helgadóttir, vestfirski karlakórinn Fjallabræður, Þuríður Sigurðardóttir, Jóhanna Linnet, Kvennakórinn, Léttsveit Reykjavíkur ásamt Jóhönnu Þórhallsdóttur og Aðalheiði Þorsteinsdóttur, Kristín Sædal, Kristján Gíslason og Raggi Bjarna. Sérstakur heiðursgestur á tónleikunum verður stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson. Ávörp flytja Pétur Bjarnason og Jónatan Garðarsson.

Hljómsveitin Spútnik leikur undir en hana skipa Pétur Valgarð Pétursson, gítar, Kristinn Kristjánsson bassi, Kristinn Einarsson hljómborð, Ingólfur Sigurðsson trommur, Auk hljómsveitarinnar koma fram tónlistarmennirnir Birgir Jóhann Birgisson á hljómborð, Óskar Guðjónsson á saxófón, Gréta Salóme Stefánsdóttir á fiðlu, Gunnar Hrafnsson á bassa og Jósep Blöndal á píanó. Kynnar kvöldsins verða söngvararnir Gísli Ægir Ágústsson og Bjarni Þór Sigurðsson.

Ævisaga Jóns Kr. Ólafssonar kom út haustið 2008 skráð af Bílddælingnum Hafliða Magnússyni sem nú býr á Selfossi. Útgáfunni var þá fylgt eftir með kynningum víða á Suðurlandi þar sem Jón Kr. kom fram með tónlistarmönnum af svæðinu við mikinn fögnuð. Hann hefur tekið vel hugmynd um að fara í tónleikaferð um Suðurland með hljómsveit Sunnlendinga. Víst er að margir hinna fjölmörgu Vestfirðinga sem búa á Suðurlandi fagna slíkum áformum ekki síður en hinir innfæddu.

FÍH-salurinn er að Rauðagerði 27 í Reykjavík og tónleikarnarnir hefjast stundvíslega kl. 20:30. Veitingasala í hléi. Miðaverð er 2.000 krónur og eru miðarnir eingöngu seldir við innganginn. Tekið er við kortum.

Fyrri greinBúast við vexti í ám
Næsta greinHermann Ólafs: Uppskeruhátíðin