„Ætlum að koma fólki í jólaskap“

Bræðurnir Aron Birkir og Heiðar Óli lofa alvöru jólatónleikum á Hellu í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Í kvöld verða jólatónleikarnir Í stofunni heima haldnir í Menningarsalnum Dynskálum 8 á Hellu.

Á tónleikunum koma fram fjöldinn allur af hæfileikaríku tónlistarfólki, víðsvegar af Suðurlandi; Bræðurnir Heiðar Óli og Aron Birkir Guðmundssynir, systurnar Aldís Elva og Hugrún Tinna Róbertsdætur, Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir og Silja Björk Seim Sigurðardóttir. Óttar Haraldsson spilar á gítar.

Systurnar Aldís Elva og Hugrún Tinna. Ljósmynd/Aðsend
Systurnar Aldís Elva og Hugrún Tinna. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru eins miklir jólatónleikar og þeir verða. Menningarsalurinn á Hellu verður skreyttur með jólaskrauti, boðið verður upp á kakó og piparkökur og það verða einungis tekin jólalög í kvöld. Við hugsum þessa jólatónleika með það í huga að koma fólki einfaldlega í jólaskap. Þess vegna erum við að reyna höfða til allra aldurshópa, erum að taka þessi gömlu góðu. Auk þess sem við erum að taka einhver ný jólalög,“ segir Heiðar Óli í samtali við sunnlenska.is. 

Stofan heima varð fljótt of lítil
Þetta er í þriðja sinn sem bræðurnir halda jólatónleika saman. „Eins og nafnið á tónleikunum gefur til kynna, Í stofunni heima, þá voru þessir tónleikar fyrst haldnir í stofunni heima hjá okkur bræðrum. Á þeim tónleikum mættu hins vegar miklu fleiri heldur en við bjuggumst við þannig við ákváðum í fyrra að halda þá í aðeins stærra rými, en samt sem áður að gera okkar allra besta til þess að halda sömu stemningu til þess að getað haldið nafninu á tónleikunum.“

„Þetta byrjaði fyrst þannig að af þessum sjö sem eru að taka þátt á tónleikunum í ár voru það aðeins ég og Aron sem vorum með fyrstu tónleikana. Á fyrstu tónleikunum söng einnig Stefán Orri Gíslason með okkur. Á öðrum tónleikunum var Óttar kominn á gítarinn þar sem við Óttar erum góðir vinir. Auk þess sem ég, Aron og Óttar erum allir saman í hljómsveitinni Sunnan 6 sem hefur verið að gera það gott þetta árið. Það sama ár bættust við Kolfinna Sjöfn og Silja Björk Seim. Þetta eru tvær stelpur frá Hellu sem við vorum búnir að heyra syngja og standa sig vel í því sem þær tóku sér fyrir hendur. Þannig við ákváðum að heyra í þeim og þær voru til í að vera með.“ 

„Í ár eru Aldís Elva og Hugrún Tinna að bætast við. Þær systur eru báðar frábærir söngvarar og hafa staðið sig báðar mjög vel á til dæmis söngkeppni FSu og öðru. Aldís Elva er kærasta mín og þar af leiðandi hef ég heyrt mikið frá þeim systrum og við vorum allir mjög spenntir fyrir því að bjóða þeim að vera með, sem þær voru heldur betur til í.“

Heiðar Óli segir að tónleikarnir séu án efa fyrir allan aldur. „Allir sem vilja eru meira en velkomnir. Aðgangseyrir er 1500 kr. en frítt fyrir 12 ára og yngri. Tónleikarnir eru kl 19:30 í menningarsalnum á Hellu.

Fyrri greinGul viðvörun: Það snjóar
Næsta greinStyrkja Einstök börn um 2,2 milljónir króna