Ætla að muna að standa berfættur í náttúrunni

Bassi, ásamt Ernu Kristínu eiginkonu sinni og sonum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Bassi Ólafsson, ljósmyndari í Hveragerði, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvernig var árið 2025 hjá þér? 2025 var skrítið ár. Mikið að ske í heiminum, Palestína, Sudan og Congo voru ofarlega á huganum. Opnaði fyrirtækið BaBúska Media með frúnni þar sem við sameinum krafta okkar með samfélagsmiðlaþekkingu, ljósmyndun og vídeógerð. Byrjað i einnig að vinna við íþrótta- og viðburðaljósmyndun sem Bassiclicks á Instagram þannig að maður var mikið með myndavélina í hendinni.

Bassi var mikið með myndavélina á lofti á árinu 2025. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað stóð upp úr á árinu? Mitt skammtímaminni fer með mig í 11 ára feðga-afmælisferð á Anfield þar sem Liverpool tók á móti Nottingham Forest í lok nóvember. Gallinn er bara sá að við erum báðir svo miklir óheillagripir að Liverpool spilaði sinn versta leik í áraraðir og tapaði 3-0. En við feðgar skemmtum okkur hins vegar konunglega þrátt fyrir það, löbbuðum útum alla Liverpoolborg og hrekktum saklaust fólk með litlum sprengjum sem við keyptum í sjoppunni hjá Amir nýja vini okkar.

Liverpool-ferðin stóð upp úr á árinu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Fegurðin við tónlistina er að lagið velur þig, það hefur eitthvað sem talar til þín á ákveðinni stundu. Tilfinning eða texti. Þessi lög geta svo tekið mann bókstaflega í tímaflakk mörgum árum seinna og minnt mann á gamlar tilfinningar og staði. Það standa tvö lög upp úr á þessu ári. Lög sem ég mun spila í framtíðinni og ferðast aftur til 2025 þegar ég er staddur úti á palli að smíða í mis góðu veðri með allskonar pælingar og vangaveltur um lífið. Það er Little Blue með Jacob Collier og Trade it for The Night með Haevn.

Bassi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Öll plön eða fastir liðir fjúka eiginlega bara út um gluggann þegar þú átt þriggja ára tvíburadrengi. Við köllum það nú bara success að komast í gegnum daginn með 80% óbrotið leirtau, fáa hárlokka á gólfinu og einhverja næringu í maganum á öllum. Það er kannski það sem er ómissandi, hlæja að öllu ruglinu og komast saman í gegnum daginn… áramót eða ekki. Algjör sturlun, gefandi sturlun.

Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Sushi í hádeginu og lambalæri með rjómasalati og rjóma-sveppasósu í áramótamatinn sjálfan. Heimatilbúinn vanilluís í eftirrétt ef það er eitthvað pláss eftir (verum bara hreinskilin, það verður pláss).

Bassi hefur verið að hasla sér völl sem íþróttaljósmyndari undir nafninu Bassiclicks. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Okkur langar að vera bara heima um þessi áramót og sleppa öllum boðum. Þetta er svo undarlegur dagur fyrir krakka. Þau bíða eftir einhverju allan daginn en vita ekki almennilega eftir hverju. Algjört anti-climax að horfa svo bara á mis sniðuga brandara í sjónvarpinu og flestir sofnaðir fyrir flugeldana, sem eru hvort sem er eiginlega of háværir og yfirþyrmandi. Það er búið að vera nóg af sprengjum í heiminum að undanförnu þannig að peningarnir sem hefðu farið í sprengjur fara í neyðarkall og til hans uncle Tito í Gasa, yndislegur strákur sem sér um að gera lífið að eins léttara fyrir börnin í Palestínu. Ef allir verða vakandi eftir Skaupið þá ætlum við bara í pottinn og njóta þar saman með ljósadýrðina yfir höfðinu á okkur inn í nýtt ár.

Mynd eftir Bassa. Ljósmynd/Úr einkasafni

Strengir þú eitthvað áramótaheit? Ég ætla að muna að standa reglulega berfættur í náttúrunni og drekka vatnsglas með dass af sjávarsalti á hverjum degi. Mig langar líka gríðarlega að finna Kóraninn í íslenskri þýðingu Helga Hálfdanarsonar og lesa, ef einhver veit um eintak bara please come and find me!

Hvernig leggst nýja árið í þig? Mig grunar að 2026 verði gott ár sem maður mun uppskera eftir „ósýnilega“ undirbúningsvinnu. 2025 var meira inn á við, 2026 verður svo út á við. Við fjölskyldan stefnum svo á að keyra í gegnum Noreg þannig að ég get tekið myndavélina með og nördast við að bæta ljósmyndum af fuglum og dýrum í safnið sem gerir mig auðvitað ennþá spenntari fyrir þessu öllu saman.

Fyrri greinJákvæður rekstur í Grímsnes- og Grafningshreppi
Næsta greinAuðleyst og fljótleyst útkall á Selfossi