Aer spilar á Kletti

Haustfundur Upplits, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, verður haldinn á Kaffi Kletti í Reykholti í dag kl. 16.00.

Þar er ætlunin að staldra við, líta yfir dagskrá Upplits fyrstu níu mánuðina, meta hvernig til hefur tekist og horfa fram á veginn. Félagsmenn og aðrir áhugasamir munu þannig fá tækifæri til að ræða málin og hafa áhrif á starfsemina á næstu mánuðum og misserum.

Að loknum fundarstörfum er svo komið að rúsínunni í pylsuendanum; tónlistardagskrá Aer-tríósins. Tríóið er skipað þeim Hilmari Erni Agnarssyni orgelleikara, Jóhanni Stefánssyni trompetleikara og Margréti Stefánsdóttur sópransöngkonu, sem öll hafa verið öflugir þátttakendur í sunnlensku tónlistarlífi á undanförnum árum.

Á efnisskránni eru lög eftir sunnlensk tónskáld á borð við Ísólf Pálsson, Pál Ísólfsson, Sigfús Einarsson og Loft S. Loftsson, flest í nýlegum útsetningum tríósins. Tríóið hefur starfað í nokkur ár og komið fram við ýmis tækifæri. Má þar m.a. nefna Sæluviku Skagfirðinga, Menningarnótt í Reykjavík, Listasumar á Akureyri og Íslenska safnadaginn.