Laugardaginn 13. desember verður aðventunni fagnað í Alviðru með með göngu út í vetrarríkið og svo með söng, jólasögu og piparkökum í hlýjunni í gamla bænum.
Á Alviðrujörðinni eru víða sjálfsprottin tré sem eiga framtíð sem glæsileg jólatré. Þeirra verður leitað í göngunni og þau felld og þátttakendur taka þau svo með heim til sín, gegn vægu gjaldi. Mæting er við gamla Alviðrubæinn kl. 13:00.
Eftir göngu, sem er um 2 km löng, verður boðið upp á heitt að drekka, piparkökur, jólasögu og söng í gamla bæjarhúsinu. Ef fólk kemst í stuð þá verður gengið í kringum jólatré og það gæti verið að jólasveinn komi ofan af Ingólfsfjalli til að heilsa upp á börnin.
Þarna verður yndisleg jólastemming á undurfögrum stað undir Ingólfsfjalli. Athugið að ef veðurspá verður slæm verður dagskráin mögulega færð til sunnudagsins 14. Fylgist með á fésbókarsíðu Alviðru hvort breyting verður á dagsetningu vegna veðurs.

