Gestný Rós Sigurðardóttir í Hveragerði svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Í mörg ár var ég óttalegur skröggur en svo einhvern veginn breyttist það eftir að ég eignaðist börn, þau komu með jólin til mín eins og segir í laginu. En þegar kemur að þessari týpísku jólatónlist þá er ég skröggur, ég og jólatónlist eigum ekki mikla samleið.
Uppáhalds jólasveinn? Hurðaskellir er sá eftirminnilegasti úr minni æsku og hann væri minn uppáhalds ef ekki væri fyrir Stúf.
Uppáhalds jólalag? Ég hlusta ekki á jólalög nema í algjöru spari en það eru tvær plötur sem ég hlusta alltaf á um jólin og það eru Forget frá Twin Shadow og An Awsome Wave frá Alt-J. Þessar plötur urðu alveg óvart jólaplötur fyrir mér þar sem þær rúlluðu til skiptis út allan desember 2012. Þær eru jólin fyrir mér, en ef ég neyðist til að velja eitt svona klassískt jólalag þá er það Það snjóar í búningi Daða Freys.
Uppáhalds jólamynd? Grinch er uppáhalds jólamyndin mín, ekki spurning. Hún hefur allt sem jólamynd þarf að hafa og hún sýnir á svo fallegan hátt að jólin snúast ekki um veraldlega hluti heldur manngæsku og tengsl. Jólin eru fullkominn tími til að ígrunda sjálfan sig og fylla sig af kærleika.
Uppáhalds jólaminning? Uppáhalds jólaminningin mín er þegar ég var lítil og sat með systur minni við jólatréð og við vorum að giska á hvað væri í pökkunum. Það var alltaf svo erfitt að bíða eftir því að klukkan slægi sex, en við systurnar vorum rosalega góðar í því að finna upp leiðir til að stytta tímann og það eru mínar uppáhalds jólaminningar úr æsku.
Uppáhalds jólaskraut? Það sem börnin mín hafa föndrað á leikskólanum og í skólanum fyrir jólin er alltaf í uppáhaldi en svo á ég nokkur Lemax-jólahús og ég held mikið uppá þau.

Minnisstæðasta jólagjöfin? Ég mun aldrei gleyma því þegar bróðir minn gaf mér jólagjöf í fyrsta skipti þegar ég var lítil. Ég var svo spennt að ég var að fara úr límingunum. Þegar ég opnaði pakkann þá var eitt sprittkerti í pakkanum og minnsti spilastokkur sem ég hef séð. Ég skildi það ekki þá og varð smá ringluð yfir gjöfinni. En í dag hugsa ég oft um þessa gjöf því þetta voru svo sterk skilaboð. Þakklætið skiptir nefnilega öllu máli.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Mér finnst ómissandi að við fjölskyldan getum farið saman og valið okkur tré hjá skógræktarfélaginu. Við höfum ekki alltaf komist í það en mér finnst það bara starta jólunum.
Hvað er í jólamatinn? Ég bara hef ekki tekið ákvörðun um það, við erum rosalega róleg í tíðinni þessi jólin en ég býst við að elda a.m.k. þrennt þar sem okkar fjölskylda er með ólíkar hugmyndir um hvað sé best að borða. Sumir þurfa sitt kjöt á meðan aðrir hafa enga þörf fyrir það, þannig að við mætum öllum óskum og við hjónin stöndum vaktina í eldhúsinu. Aðalatriðið er að sósan sé góð og kartöflurnar vel sykraðar. Þá eru allir sáttir.
Ef þú ættir eina jólaósk? Þá myndi ég óska þess að allir fengju frið og rými til að vera þeir sjálfir og að við myndum öll einbeita okkur að því að sjá kosti og styrkleika hvers annars, hjálpast að við að leysa úr ágreiningnum og lyfta hvort öðru upp. Við getum séð fyrir okkur að við séum kerti, annaðhvort getum við blásið á kerti hvers annars eða smitað logann á milli og kveikt ljós hjá hvort öðru. Ég myndi óska þess að við myndum kveikja á öllum þeim kertum sem hafa slokknað og hjálpa hvort öðru við að viðhalda loganum.

