„Að teikna og mála jafn nauðsynlegt og að sofa og borða“

Alda Rose í vinnustofu sinni í Brimrót á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Listakonan Alda Rose Cartwright hefur verið búsett ásamt fjölskyldu sinni á Stokkseyri undanfarin fjögur ár. Nú í febrúar hefur hún verið með sölusýningu á verkunum sínum á Gallery Stokk á Stokkseyri og hefur sýningin vakið verðskuldaða athygli.

Aðspurð hvernig Alda myndi lýsa verkunum sínum segir hún að heilt séu þau hálfgerðar portrett myndir af náttúrunni. „Verkin mín eru fjölbreytt að því leyti að þau eru unnin í mismunandi miðlum eins og vatnslitum, grafík, olíu og fleira en eiga þó sameiginlegt að spegla náttúruna, hvernig hún kemur fyrir mér hvort sem það er í narratívu samhengi eður ei. Þau eiga það til að vera svolítið dulræn og súrrealísk, sem ég tengi oft við draumfarir mínar og pælingar,“ segir Alda í samtali við sunnlenska.is.

OMEN/olíumálverk 2018.

Innblásin af náttúrunni
„Ég dreg innblástur aðallega frá náttúrunni, hér á Íslandi sem og annarstaðar. Ég er forvitin um náttúruna í öllum stærðum og gerðum og ég rannsaka hana í gegnum teikningu. Ég velti líka fyrir mér samspili manns og náttúru sem er oft uppspretta hugmynda minna. Mér hefur líka ávallt fundist táknmyndir víða úr listasögunni áhugaverðar, t.d. hvaða þýðingu ákveðinn litur eða form býr yfir eða táknmynd dýra og plantna sem er jafnan mismunandi eftir hverjum menningarheimi,“ segir Alda.

Alda segir að það sé stutt síðan hún áttaði sig á því að uppáhalds listamennirnir hennar eru oftast konur – alveg óvart. „Sem málara hef ég kannski meiri áhuga á málurum eins og t.d. Marlene Dumas, Georgia O’Keefe, Hilma af Klint og Inúita listakonunni Kenojuak Ashevak. Það er einhver næmni hjá þessum listakonum sem mér finnst áhugaverð en einnig einlægni og tilgerðarleysi sem talar til mín,“ segir Alda.

Eyddi miklum tíma í ímyndaðum heimi
Alda segir að hún hafi alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa. „Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að teikna eða lesa sem krakki. Ég er einkabarn sem ólst upp hjá einstæðri móður og var því mikið ein en mér leiddist aldrei. Ég eyddi töluverðum tíma í mínum ímyndaða heimi í gegnum teikningu og lestur. Það kom aldrei til greina að gera eitthvað annað þegar ég varð stór – að teikna og mála finnst mér nánast jafn nauðsynlegt eins og að sofa og borða,“ segir Alda.

Síðasti polkann, 2019, silkiþrykk.

„Mamma hefur alltaf verið mjög listræn og fór í Myndlista- og handíðaskólann að læra grafíska hönnun svo að það voru alltaf til litir og pappír á heimilinu og ýmislegt skemmtilegt til að prófa. Það hefur örugglega hjálpað mér að hafa þetta svona aðgengilegt. Mamma fór líka oft með mig á safnarölt um Reykjavík sem ég tel nauðsynlegan part af uppeldi allra barna. Söfn eiga að vera svo sjálfsagður hlutur af daglegu lífi. En fyrir utan það sótti ég mikið í þetta bara sjálf,“ segir Alda.

Ólst upp innan veggja dýragarðs
Uppvaxtarárin höfðu mótandi áhrif á Öldu sem listamann en hún hlaut heldur óvanalegt uppeldi til að byrja með. „Ég fæddist í Kaliforníu hjá föðurfjölskyldunni minni og var mikið á flakki um heiminn með foreldrum mínum fyrstu árin. Aðallega í dýragörðum þar sem pabbi minn starfaði sem háhyringaþjálfari, flakkið fylgdi starfinu en hentaði okkur mömmu kannski ekkert sérstaklega. Ég ólst svo upp í Reykjavík frá svona 5 ára aldri en flutti aftur til Kaliforníu þegar ég var 19 ára og bjó þar næstu 10 árin með syni mínum.“

„Ég fór í Listaháskóla í San Francisco þar sem ég fyrir tilviljun datt inní grafík deildina með öll þessi tæki og tól og þá var ekki aftur snúið. Ég tók því grafík samhliða málun. Verkin mín hafa eiginlega alltaf verið með miklu náttúru ívafi og kannski er það afleiðing þess að verja fyrstu uppeldisárunum innan veggja dýragarðs. Verkin mín, eftir að ég flutti til Íslands hafa kannski breyst að því leyti að fókusinn er mun meira á norðurhafið og lífríki þess. Ég hef þó alltaf verið heilluð af hafinu með óttablandinni virðingu en túlkun mín á því þróast og breytist. Auðvitað hefur með árunum aukin vitund um hlýnun jarðar spilað inní hvernig ég fjalla um náttúruna,“ segir Alda.

Guoache, 2011

Eins og rótsterkur kaffibolli
Aðspurð hvort búsetan á Stokkseyri hafi haft áhrif á verk hennar segist Alda vera óviss um það. „Ég er meira þar sem ég á að vera og staðsetninginn þjónar tilgangi sínum að veita mér innblástur. Að hafa svo auðveldan aðgang að hafinu og náttúrunni sem er hér gefur mér svo ótrúlega mikið. Víðáttan hér er engu lík og brimið hér við ströndina er eins og rótsterkur kaffibolli, það gefur manni alveg magnaða orku. Hér er hver fjársjóðurinn á fætur öðrum og ég tel mig heppna að fá að njóta þess. Ég held þó að vetrarhimininn hér hafi haft töluverð áhrif á litavalið í nýlegustu prentverkunum.“

Sem fyrr segir hefur Alda verið búsett með fjölskyldunni sinni á Stokkseyri síðastliðin fjögur ár og líkar þeim búsetan mjög vel. „Burtséð frá hinni mögnuðu náttúru sem okkur umlykur er samfélagið afar indælt og fólk heldur vel utan um hvort annað. Það er ekki hlaupið að því hinsvegar að fá vinnu við hæfi sem er pínu ströggl fyrir svona menningarpésa eins og okkur Pétur kærasta minn sem er bókmenntafræðingur en hefur kannski leitt til þess að við reynum að skapa okkur atvinnu með öðrum leiðum,“ segir Alda en þess má geta að þau skötuhjúin eru hluti af hópnum sem standa að BrimRót Menningarhúsi á Stokkseyri.

Trérista & silkiþrykk, 2011.

Námskeið í bígerð
Það er nóg að gera hjá Öldu þessa dagana en auk fyrrnefndrar sýningar á Gallery Stokk er hún að leggja lokahönd á verk fyrir aðrar sýningar. „Ég er að bardúsa í nokkrum samsýningum sem verða í Reykjavík á næstunni og erlendis, m.a. í sal íslenskrar grafíkur á HönnunarMars og Norræna húsinu í vor. Ég vinn stór þrykk verk fyrir þær sýningar en ég er líka svolítið að vatnslita á milli þess að mála í olíu heimavið þegar tími og heilsa vinnur með mér. Ásamt því að mála og þrykkja er ég að setja saman námskeið í silkiþrykki hjá okkur í BrimRót Menningarhúsi í vor. Mig langar svo að fólk fræðist meira um grafík og prófi því þetta er svo skemmtilegt,“ segir Alda.

„Ég verð með silkiþrykk demo laugardaginn 29. febrúar kl. 15 á Gallery Stokk þar sem sýningin mín Misseri er uppi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta og prófa silkiþrykkið og jafnvel skrá sig á námskeið ef áhugi er fyrir hendi. Sýningin verður opin næstu tvær helgar, eða út febrúar. Það er líka hægt að senda á mig póst á aldarosec@gmail.com og fylgjast með á Facebook og líka á Facebooksíðu BrimRót,“ segir Alda að lokum.

Fyrri greinSelfoss byrjar Lengjuna á sigri
Næsta greinLeitað að hugmyndum fyrir Vor í Árborg