ABBA stemning í miðbæ Selfoss í kvöld

Fríða Hansen sér um að halda uppi stuðinu í miðbæ Selfoss í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Í tilefni af sænskum degi í miðbæ Selfoss mun söngkonan Fríða Hansen stýra fjöldasöng með lögum úr bíómyndinni Mamma Mia í miðbænum klukkan 21 í kvöld.

Fríða var með Mamma Mia Party sýningu á Sviðinu í vor sem sló algjörlega í gegn. Uppselt var á allar þrjár sýningarnar og komust færri að en vildu.

„Það var alveg ótrúlega fyndið að það seldist eiginlega upp á fyrstu sýninguna áður en sýningin fór í almenna miðasölu, sem var alveg tryllt og kom okkur rosalega á óvart,“ segir Fríða í samtali við sunnlenska.is.

„Stemmningin er búin að vera geggjuð. Það er eiginlega búið að vera fáránlegt andrúmsloft á þessu showi. Fólk er svo til í að mæta og vera með og mér finnst oft eins og vinahópar hafi komið saman og vera kannski búnir að undirbúa í tvo eða þrjá daga og horfa á báðar myndirnar,“ segir Fríða en þess má geta að Mamma Mia Party sýningarnar hefjast aftur í ágúst og er miðasala nú þegar hafin.

Frá Mamma Mia Party showinu á Sviðinu. Ljósmynd/Davíð Lúther

Einhver gleði-formúla í ABBA lögunum
Miðað við hversu góðar viðtökur Mamma Mia Party sýningarnar fengu þá má ætla að stemningin verði einstaklega góð í miðbænum í kvöld. „Fólk kann náttúrulega lögin utan að eins og það þekkir á sér hendurnar.“

„Ég veit ekki hvort skýringin á þessari miklu og góðu stemningu með ABBA tónlistinni sé ekki bara sú að þau hafi fundið upp einhverja gleði-formúlu. Það virðist bara eins og öll ABBA lögin virki í partýjum. Kannski er það bara einlægnin í lögunum sem höfðar til fólks. Þetta eru svo einlægir textar og mikil gleði.“

Fríða segir að fyrirkomulagið í kvöld sé einfalt. „Við mætum öll í mega gír og búin að læra lögin okkar. Það verður hægt að fá frían blómakrans með ljósum í hárið og ef veður leyfir þá verðum við úti í gryfjunni, sem er sko ekki leiðinlegt. Ef það rignir þá hendum við okkur inn á Sviðið, það verður sko ekki leiðinlegt þar heldur. Við syngjum saman og ég tek ykkur öll með í smá sneak peek af Mamma Mia Partý showinu.“

Fólk í búningum skemmtir sér betur
Að sögn Fríðu þá getur fólk átt von á sumargleði-stemningu í kvöld með Mamma Mia ABBA þema. „Mér finnst að fólk eigi að mæta í búningum, því að mér finnst eins og fólk í búningum skemmti sér betur,“ segir Fríða og hlær.

„Hvernig undirbúum við okkur fyrir kvöldið? Við fáum okkur bara einhvern skemmtilegan drykk og setjum sólhlíf ofan í hann. Hann þarf ekkert að vera áfengur, þetta má vera eplasafi með röri.“

„Mér finnst að allir krakkar eiga að koma með mömmu og pabba eða ömmum og systrum. Allir eiga að mæta og taka lagið með okkur. Þetta er svo gaman. Og í krafti fjöldans þá er þetta er þetta töfrandi stund,“ segir Fríða að lokum.

Facebook-viðburður Mamma Mia Sing-Along

Fyrri greinAð para saman sokka fær mig til að missa lífsviljann
Næsta greinGul viðvörun: Austan hvassviðri undir Eyjafjöllum