Á slóðum Sigríðar í Brattholti

Táknrænt gildi Gullfoss í íslenskri náttúrusýn er umfjöllunarefni næsta viðburðar Upplits, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, í kvöld kl. 20:00.

Segja má að staðarvalið sé táknrænt – en viðburðurinn fer fram á Hótel Gullfossi í Brattholti og það er Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur sem flytur fyrirlestur.

Hvernig blandaðist Gullfoss inn í fossamálin í byrjun 20. aldar? Um hvað snerist „fossmálið“ og af hverju lifir það í sögunni? Hvers vegna skrifaði Sigríður í Brattholti forseta Íslands bréf? Hver er saga hugmynda um nýtingu eða verndun Gullfoss? Hvaða sess skipar Gullfoss í íslenskri náttúrusýn í dag? Um þessi atriði og fleiri verður fjallað í fyrirlestri Unnar Birnu um Gullfoss í umræðu um virkjanir frá því upp úr aldamótunum 1900 og fram til þessa dags.

Sjónum verður beint að táknrænu gildi fossins og þætti Sigríðar í Brattholti í að móta þá sögu. Erindið byggist á nýlegri doktorsritgerð Unnar Birnu í sagnfræði sem út kom hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2010 með titlinum, „Þar sem fossarnir falla“.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Fyrri greinGosinu ekki lokið
Næsta greinVandkvæði að fá fólk í vinnu