Á þriðja tug karla í nýjum kór

Fyrsta söngæfing nýstofnaðs Karlakórs Vestur-Skaftfellinga var í Tunguseli sl. mánudagskvöld. Þar mættu 24 söngmenn.

Jón Geir Ólafsson í Gröf er í forsvari fyrir kórinn en hann hafði alltaf langað til að syngja í karlakór. “Ég tók þetta nú bara upp hjá sjálfum mér en það voru greinilega fleiri sem höfðu áhuga á þessu, eins og mig grunaði. Ég samdi við stjórnanda og undirleikara og auglýsti svo stofnfund kórsins,” segir Jón Geir en þar mættu tuttugu karlar og fjórir til viðbótar mættu á fyrstu æfinguna.

“Við ætlum að æfa létt og skemmtileg lög, aðalatriðið er að þetta sé skemmtilegt og það verður æft á hverju mánudagskvöldi fram á vorið,” segir Jón Geir og bætir við að til að dreifa akstrinum verði æft í Tunguseli í janúar, í Vík í febrúar og á Klaustri í mars.

Brian R. Haroldsson, tónlistarkennari á Klaustri og Kári Gestsson, organisti í Vík, sjá um stjórn og undirleik og Jón Geir segir að enn séu allir áhugasamir karlar í sýslunni velkomnir. “Þeir geta sett sig í samband við mig eða mætt á æfingu á mánudagskvöld.”