Að veita og þiggja

Sunnudaginn 13. september kl. 13 – 14:30 verður umræðudagskrá í Listasafni Árnesinga í tengslum við sýninguna Gullkistan: 20 ár.

Frummælendur verða Jón Özur Snorrason sem gerir grein fyrir gestinum, Ásborg Arnþórsdóttir sem gerir grein fyrir ferðamanninum og Guðrún Eva Mínervudóttir sem gerir grein fyrir nærumhverfi sköpunar.

Jón sem er kennari við FSu á Selfossi hefur tekið þátt í því að taka á móti gestum Gullkistunnar en hefur einnig verið í sporum gestsins og notið dvalar í „residensíu“ erlendis. Ásborg er ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu með langa reynslu af málefnum ferðaþjónustunnar. Guðrún Eva býr í Hveragerði og auk þess að vera mikilsvirtur rithöfundur hefur hún kennt skapandi skrif m.a. við Listaháskóla Íslands.

Gert er ráð fyrir 10-15 mín. erindi frá hverjum framsögumanni og síðan umræðum með þátttöku gesta. Í pallborði munu einnig sitja Alda Sigurðardóttir og Kristveig Halldórsdóttir stofnendur Gullkistunnar. Umræðum stjórnar Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Miðað er við að dagskráin verði ekki lengri en einn og hálfur tími.

Á sýningunni Gullkistan: 20 ár má sjá nýleg verk tuttugu og fjögurra listamanna sem tengst hafa starfsemi Gullkistunnar á Laugarvatni, ýmist sem þátttakendur í listahátíðunum 1995 og 2005 eða dvalið í miðstöð sköpunar. Verkin á sýninguna í Listasafni Árnesinga valdi sýningarstjórinn Ben Valentine og nálgunin er auga gestsins. Þar má sjá verk eftir fimmtán erlenda listamenn frá sjö löndum og áhrif frá Íslandsdvöl þeirra en einnig verk eftir níu íslenska listamenn. Til hliðar við sýninguna eru aðgengilegar ýmsar heimildir um starfsemi Gullkistunnar og skapandi aðstaða fyrir gesti er líka til staðar.

Ákveðið hefur verið að framlengja sýninguna Gullkistan: 20 ár til 11. október. Hún er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Gullkistunnar og styrkt af uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Í september er safnið opið alla daga kl. 12 – 18 en frá og með 1. október tekur vetraropnun gildi en þá er opið fimmtudaga – sunnudaga. Aðgangur að safninu er ókeypis.

Fyrri greinVefurinn Verndumthjorsa.is opnaður
Næsta greinÁrborg tekur jákvætt í móttöku flóttafólks