Aðventutónleikar nýstofnaðs kórs

Söngfjelagið er nýstofnaður kór í Reykjavík undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Kórinn heldur sína fyrstu aðventutónleika sunnudaginn 11. nóvember kl. 20 í Háteigskirkju.

Þá frumflytja Söngfjelagið og Valskórinn nýtt jólalag eftir Báru Grímsdóttur við ljóð eftir Erlend Hansen, en Bára stjórnar síðarnefnda kórnum, sem er gestur Söngfjelagsins á tónleikunum.

Einsöngvarar á tónleikunum eru Björg Þórhallsdóttir sópran og Óskar Pétursson tenór. Á efnisskránni eru innlend jafnt sem erlend lög tengd aðventu og jólum. Hljóðfæraleikarar eru þau Peter Tompkins á óbó, Kristín Lárusdóttir á selló, Sophie Schoonjans á hörpu og Kári Þormar á orgel.

Söngfjelagið, sem var stofnað í haust, er skipað vönu söngfólki, sem hyggst ráðast í verkefni af afar fjölbreyttum toga næstu misseri. Kórinn varð til vegna áhuga hópsins á að flytja vandaða kórtónlist undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar en hann er Sunnlendingum að góðu kunnur af störfum sínum í Skálholti. Hilmar Örn er meðal reyndustu og fremstu kórstjóra landsins og hefur m.a. hlotið athygli og viðurkenningu á alþjóðavettvangi með Kammerkór Suðurlands.
Söngfjelagið kom fram í fyrsta sinn á styrktartónleikum Hollvinasamtaka Líknardeilda Landspítalans 17. nóvember sl. við góðan orðstír.

Forsala aðgöngumiða er hjá félögum í Söngfjelaginu og Valskórnum, og á netfanginu songfjelagid@gmail.com. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn á tónleikakvöldi.