„Að baki hverju slysi liggur ekki bara eitt augnablik undir“

„Þetta er sýning sem er á mörkum myndlistar og þjóðfræða,“ segir þjóðfræðingurinn Vilborg Bjarkardóttir.

Laugardaginn 14. apríl opnar sýning Vilborgar sem ber heitið Þjáning / tjáning: gildi sagnamennsku í bataferli eftir slys á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, Hveragerði.

„Sýning er mastersverkefni mitt í hagnýtri þjóðfræði og byggir á sautján viðtölum sem ég tók við fólk sem lifði af alvarlegt slys,“ segir Vilborg.

Á sýningunni verða viðtalsbrot til sýnis ásamt hlutum sem viðmælendur Vilborgar tengja við slysið og bataferlið.

Sýningarstaðurinn vel við hæfi
„Sýningin verður haldin á heilsuhælinu í Hveragerði. Ástæðan fyrir því er sú að mér fannst sýningarefnið og staðsetningin passa vel saman. Þeir sem dvelja á heilsuhælinu eru í oft í einhvers konar innra ferðalagi. Mig langaði að gera sýningu sem gæti mögulega verið hluti af því ferli. Mér fannst eins og sögurnar gætu ef til vill nýst einhverjum sem dvelja á hælinu, og þess vegna valdi ég þennan sýningarstað.“

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún ákvað að rannsaka þetta efni segir Vilborg ekki vera viss. „Ég veit í ekki rauninni hvernig áhuginn fyrir þessu efni byrjaði, en hann hefur loðað við mig lengi.“

„Ég byrjaði að vinna markvisst með þetta efni í lokaverkefninu mínu sem ég nefndi Sjúkrasögur í Listaháskóla Íslands fyrir rúmlega tíu árum síðan. Að sumu leyti finnst mér sögur þeirra sem lifa af alvarleg slys sameina svo margt sem ég hef áhuga á. Því þetta eru magnaðar þroskasögur sem fjalla um það hvernig fólk neyðist til þess að finna lífi sínu nýjan tilgang, þrátt fyrir miklar skerðingar.“

„Þá finnst mér líka áhugavert hvernig inn í þessar sögur tvinnast gjarnan saman trú og yfirnáttúrulegir hlutir. Svona hvernig við dýpkum merkingu atburða þegar þeir tengjast merkingarbærum atburðum í lífi okkar, svona eftir á útskýringar eða sagnamennska sem sem reynir að útskýra eitthvað sem er ofar mannlegum skilningi.“

Lífsviðhorfið skiptir sköpum
Vilborg telur að allir geti lært mikið á því að heyra þessar sögur sem fjalla um hvernig fólk nær að vinna sig út úr erfiðleikum. „Ég hef sjálf lært svo mikið af viðmælendum mínum, t.d. hvernig lífsviðhorf skiptir sköpum í því hvernig manni líður frá degi til dags. Sem sagt gildismat skiptir öllu máli þegar maður stendur frammi fyrir hindrunum og erfiðleikum.“

Vilborg segir að það hafi margt komið á óvart við rannsóknina hennar. „Þetta verkefni er búið að vinda mjög mikið upp á sig og taka á sig ýmsar birtingarmyndir. Þetta er svolítið eins og ganga í myrkri þangað til að þú ert komin skyndilega í ljósið og situr uppi með einhverja heildarmynd. Ég hef gaman að þannig tilraunamennsku. Þegar ég veit ekki alveg hvert ég er að fara og mér finnst ég vera að villast en svo allt í einu enda ég á einhverjum stað með verkefnið sem ég var ekki búin að sjá fyrir um.“

„Það sem er auðvitað magnaðast í þessu ferli eru viðmælendur mínir og þeirra framlag til sýningarinnar. Ég stend í mikilli þakkarskuld við þá. Þannig í rauninni það sem kemur mest á óvart í þessu ferli er hvað viðmælendur mínir voru viljugir að deila með mér, hvað þeir voru örlátir á reynslu sína. Og hversu mikil dýpt næst í viðtöl ef þau tengjast okkar sárustu reynslu. Enda að baki hverju slysi liggur ekki bara eitt augnablik undir heldur allt líf manneskju bæði lífið fyrir slys og það sem eftir kemur,“ segir Vilborg að lokum.

Sýningin opnar sem fyrr segir næstkomandi laugardag, frá kl. 15-18 og stendur yfir í sex vikur eða til 26. maí.


Vilborg Bjarkadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinAllt jafnt á Ásvöllum
Næsta greinLaugardagsplokk í Árborg