83 ára hagyrðingur gefur út sína fyrstu bók

Það er ekki á hverjum degi sem 83 ára hagyrðingar gefa út sína fyrstu ljóðabók en það gerðist þó á dögunum þegar Ólafur Runólfsson frá Berustöðum í Ásahreppi gaf út ljóðabók sína, Hug og hjarta.

Ólafur gekk fyrir nokkrum árum gegnum miklar raunir en hann fór í hjartauppskurð og tilheyrandi endurhæfingu. Brösuglega gekk honum að komast í aðgerðina á sínum tíma en henni var tvisvar frestað með tilheyrandi kvíða og sálarkvölum, líkamshárarakstri og öðrum misþægilegum undirbúningi.

Að lokinni aðgerð tók við tímabil uppbyggingar og endurhæfingar og er Ólafi einkar lagið að sjá þar björtu hliðarnar og kímnigáfan er aldrei langt undan þótt hann leyni ekki því sem erfitt reyndist. Vísnasnillin er Ólafi í blóð borin og segja má að hann hugsi í hendingum. Telja má víst að mörgum þyki bókin happafengur, einkum þeim sem unna góðum og vönduðum kveðskap um málefni sem margir þekkja.

Ólafur er fæddur að Berustöðum, fimmti í röð sjö systkina, sonur hjónanna Önnu Stefánsdóttur og Runólfs Þorsteinssonar.
Hann starfaði lengi við bifreiðaakstur, ökukennslu og bifvélavirkjujn en hann öðlaðist einmitt meistararéttindi í þeirri iðn. Kona Ólafs var Kristbjörg Stefánsdóttir frá Hallgilsstöðum í Fnjóskadal en hún lést 1992.

Ólafur býr nú í Kópavogi og er heiðursfélagi í Kvæðamannfélaginu Iðunni og Málfundafélaginu Hörpu.

Bókin fæst hjá höfundi en einnig í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi, Bókabúðinni Hamraborg í Kópavogi og verslun Eymundsson í Mjódd í Reykjavík.