75 ára gömul kvikmynd úr Rangárvallasýslu

Hópur í skoðunarferð að Heklugosinu árið 1947. Mynd/Kvikmyndasafn Íslands

Kvikmyndasafn Íslands hefur á undanförnu bætt verulegu magni, mörgum klukkustundum, af nýju kvikmyndaefni á vefinn islandafilmu.is. Um er að ræða myndefni frá árinu 1936 og fram yfir 1970. Kvikmyndirnar voru teknar af kvikmyndagerðarmanninum Kjartani Ó. Bjarnasyni (f. 1901 – d. 1981).

Í myndefni Kjartans, sem finna má á islandafilmu.is, má finna fjölbreytt efni, svo sem skemmtiför ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs 1936, þjóðaratkvæðagreiðsluna 1944, sumarbúðir Rauða krossins við Silungapoll 1945, lífið í eyjum landsins og knattspyrnuleik Íslands og Dynamo Kiev árið 1957.

Þar er einnig kvikmynd sem Kjartan gerði fyrir Rangæingafélagið árið 1947 en Kjartan var ráðinn af félaginu til að gera kvikmynd um Rangárvallasýslu. Framleiðsla myndarinnar gekk hægt og illa og virðist sem hún hafi ekki verið kláruð. Elsta efnið er frá Heklugosinu árið 1947 en auk þess má sjá landbúnað í Rangárvallasýslu um miðja öldina og margt fleira. Myndina má sjá hér fyrir neðan.

Kjartan Ó. Bjarnason var fyrsti Íslendingurinn til að gera kvikmyndagerð að aðalstarfi þegar hann hætti sem prentari árið 1945. Kjartan skyldi ekki eftir sig margar fullbúnar kvikmyndir með titlum. Hann fluttist til Danmerkur og aflaði sér tekna með því að ferðast um Danmörku, og víðar, þar sem hann sýndi kvikmyndir frá Íslandi og talaði yfir þær. Þá fór hann margar sýningarferðir um Ísland en þær nýtti hann einnig til að taka upp frekara efni til sýninga ytra.

Fyrri greinÁlag á útsvar Árborgarbúa og fasteignagjöld hækka
Næsta greinBríet og Bjarki með silfur á Smáþjóðamótinu