50 ára saga Sigurbjargar

Sýning Sigurbjargar Eyjólfsdóttur opnaði formlega í gær í Galleríinu undir stiganum í Ölfusi. Sýningin ber heitið „50 ára saga Sigurbjargar“ og þar sýnir hún ýmsa muni sem hún hefur gert á 50 ára ferli sínum.

Sigurbjörg er fædd árið 1944 og hefur tekið þátt í ótal handverkssýningum. Hún lærði blómaskreytingar hjá Ringelberg í Rósinni, Vesturveri. Þar lærði hún „að búa til allt úr engu“. Hún lærði módelteikningu í myndlistarskóla og á meðan börnin hennar voru lítil málaði hún vöggusett og skírnarkjóla með taulitum. Þá eru ófá fermingarkertin sem hún hefur málað með nöfnum fermingarbarna.

Sigurbjörg stundaði nám í Handmenntaskóla Íslands á árunum 1981-1984 og var ein af stofnendum Myndlistarfélags Árnesinga. Hún hefur sótt ótal námskeið hjá félaginu og tekið þátt í samsýningum þess.

Sigurbjörg rak verslunina Föndur og gjafir (áður Föndurskúrinn) á Selfossi í níu ár og fór þá að vinna mikið með leir. Hún býr nú í Selvoginum og sækir myndefnið mikið í umhverfi sitt, Strandarkirkju og sögurnar sem tengjast staðnum.

Sýningin mun standa út september og er opin á opnunartíma Bókasafns Ölfuss.

Fyrri greinHólmfríðar saga sjókonu
Næsta greinBragðdauft jafntefli á Selfossi