Einstök samsýning og samvinna Möru og Páls Jökuls

Sýningin Arctic heart/Hjarta norðursins opnar laugardaginn 25. Júlí kl. 11:00 – 17:00 að Fossheiði 1 á Selfossi.

Hér er um að ræða einstaka samsýningu og samvinnu hollensku listakonunnar Mara Liem og Páls Jökuls Péturssonar, landslagsljósmyndara.

Verkin túlka þeirra upplifun af Íslandi og Íslendingum. Sýningin á laugardaginn er fyrri hálfleikur af stærra verkefni og stærri sýningu sem fyrirhugað er að opna hér á landi á vormánuðum 2021 og einnig að sýna erlendis í framhaldi af því.

Mara Liem er hollensk listakona sem sýnir blýantsteikningar. Í myndum hennar túlkar hún óblíða náttúru Íslands og þrautseigju þess sem lifir þar, fallegt, vilt og úrræðagott fólk sem landið hefur gefið kraft og þor. Náttúran er órjúfanlegur hluti af fólkinu og tilvist þeirra á sama hátt stjórnast af orkunni í umhverfinu, vekur sterkar tilfinningar og sest að í frumunum, hjörtu beggja slá í takt. Mara sýnir nú 10 portret án andlits af 10 einstaklingum sem túlka hvernig karakter þeirra er mótaður af norðrinu.

Páll Jökull Pétursson er landslagsljósmyndari sem finnur frelsið í hjarta norðursins og oft óblíðri og villtri náttúrunni sem er órjúfanlegur hluti þess. Hann þrífst á ástríðunni sem fylgir því að vera úti í náttúrunni, finna æðasláttinn, heyra vindinn þjóta hjá og fylgjast með hvernig umhverfið er síbreytilegt. Á sýningunni túlkar Páll Jökull hjarta norðursins með 10 ljósmyndum.

Menningarviðburður þessi hefur nú þegar vakið athygli út fyrir landsteinana og vekur fólk til umhugsunar um Ísland og íslendinga og hvaða áhrif landið hefur á fólkið og líf þess. Um er að ræða öðruvísi túlkun á íslensku þjóðarsálinni og myndmálið talar sterkt inn í nafn sýningarinnar, Arctic heart/Hjarta norðursins.

Fyrri greinBest að slaka á með klassíska tónlist í gróðurhúsinu
Næsta greinÞyrla sótti göngukonu á Laugaveginn