5,4 milljónir króna til sunnlenskra verkefna

Kristjana Stefánsdóttir.

Kristjana Stefánsdóttir, tónskáld frá Selfossi, var meðal þeirra sem hlutu hæsta styrkinn þegar úthlutað var úr Tónlistarsjóði í sérstöku átaksverkefni vegna COVID-19.

Alls bárust 540 umsóknir í sjóðinn og var sótt um rúmar 400 milljónir króna en til úthlutunar úr átaksverkefni tónlistar vegna heimsfaraldurs COVID-19 var 81 milljón króna. Veittir voru styrkir til 162 verkefna.

Kristjana var ein þeirra átta sem hlutu hæsta styrkinn, eina milljón króna, vegna verkefnisins Blái hnötturinn fyrir stórsveit, kór, einsöngvara og sögumann.

Meðal þeirra sem hlutu 600 þúsund króna styrki voru Sunnlendingarnir Guðmundur Óli Gunnarsson fyrir Stígur hún við stokkinn sem er óður til landvættanna en Guðmundur Óli fékk einnig 400 þúsund króna styrk fyrir Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, Lay Low fékk 600 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Debris and Dust, Tómas Jónsson fyrir útgáfutónleika vegna Tómas Jónsson 3 og Vignir Þór Stefánsson fyrir upptökur á undirleikstónlist fyrir grunnskóla.

Einnig var úthlutað 400 þúsund króna styrkjum og meðal þeirra sem hlutu þá voru Karitas Harpa Davíðsdóttir fyrir On the verge, bassaleikarinn Leifur Gunnarsson fyrir verkefnið Beint á ská frá Borgarbókasafni, Sara Mjöll Magnúsdóttir vegna tónsmíða á nýrri stórsveitatónlist fyrir Stórsveit Reykjavíkur og Veronique Vaka fyrir verkefnið Kvíðvænleg er þessi tíð, fyrir sópran og strengjakvartett.

Einnig hefur verið úthlutað úr reglubundinni seinni úthlutun Tónlistarsjóðs árið 2020 og þar fékk Hlín Pétursdóttir Behrens 150.000 króna úthlutun fyrir verkefnið Hrekkjavökuhryllingur.

FRÉTTIN VAR UPPFÆRÐ 9/6/2020 þar sem upplýsingar vantaði um 400.000 króna styrki í átaksverkefninu

Fyrri greinFyrstu skóflustungur að gestastofu við Klaustur
Næsta greinÞurrgallinn reyndist Friðrik vel