250 ár frá fæðingu Sveins Pálssonar – Hátíð í Vík

Í dag er 250 ára fæðingarafmæli Sveins Pálssonar, náttúrufræðings, læknis og ferðagarps. Sveinn er tvímælalaust einn af merkustu sonum Víkur í Mýrdal.

Sveinn var fæddur á Steinsstöðum í Tungusveit í Skagafirði þann 25. apríl 1762, sonur hjónanna Páls Sveinssonar bónda og gullsmiðs og Guðrúnar Jónsdóttur yfirsetukonu. Sveinn var einn fyrsti náttúrufræðingur Íslendinga og hefur Dagur umhverfisins verið haldinn á fæðingardegi hans undanfarin ár.

Árið 1799 var hann skipaður fjórðungslæknir í Sunnlendingafjórðungi og sem slíkur fékk hann hálfa jörðina Vík frítt til ábúðar nokkrum árum síðar. Eiginkona Sveins var Þórunn Bjarnadóttir og eignuðust þau fimmtán börn en tíu þeirra komust upp.

Í tilefni af 250 ára fæðingarafmæli Sveins verður hátíðardagskrá í Vík í dag þar sem umhverfisráðherra mun afhjúpa minnisvarða um Svein sem Mýrdalshreppur hefur látið reisa á Guðlaugsbletti. Einnig verður dagskrá í Leikskálum þar sem flutt verða erindi um líf og störf Sveins Pálssonar. Börn úr Víkurskóla taka þátt í dagskránni auk þess sem til sýnis verður afrakstur þemaviku skólans. Dagskráin er einnig hluti af Jarðvangsviku Kötlu – Jarðvangs.

Dagskráin í Vík hefst kl. 15 með stuttri athöfn við minnismerkið á Guðlaugsblettinum og lýkur henni með því að farið verður að leiði Sveins í kirkjugarðinum á Reyni.

Fyrri greinSelfyssingar komnir í sumarfrí
Næsta greinJón fræðir ungt fólk um fjármál