130 flytjendur á stærstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands á æfingu. Ljósmynd/Aðsend

Jólatónleikar, laugardaginn 10. desember í Selfosskirkju, verða stærstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands frá upphafi.

Um 50 hljóðfæraleikarar, flest allir af Suðurlandi munu skipa hljómsveitina og auk þeirra koma fram Kirkjukór Selfosskirkju og Barna- og unglingakór Selfosskirkju ásamt einsöngvurunum Hallveigu Rúnarsdóttur, sópran og Eyjólfi Eyjólfssyni, tenór. Flytjendur verða um 130 talsins.

Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson, konsertmeistari er Hvergerðingurinn Greta Gunnarsdóttir og stjórnendur kóranna eru þær Edit Molnár og Kolbrún Berglind Grétarsdóttir.

Mikilvægur hluti af uppbyggingu menningarlífs
Sinfóníuhljómsveit Suðurlands er nú á sínu þriðja starfsári. Að sögn Lindu H. Blöndal, aðstoðarmanns sveitarinnar, er hljómsveitin mikilvægur hluti af uppbyggingu menningarlífs á Suðurlandi en með starfsemi hennar skapast ný tækifæri fyrir atvinnutónlistarfólk og annað tónlistarmenntað fólk í landshlutanum.

„Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands voru haldnir haustið 2020. Það voru skólatónleikar og hljómsveitin hefur nú náð þeim gleðilega áfanga að hafa spilað skólatónleika fyrir börn í öllum fimmtán sveitarfélögum Suðurlands og gott betur. Einnig hefur hljómsveitin leikið á Oddahátíð, í Listasafni Árnesinga og haldið Vínartónleika bæði á Höfn og á Kirkjubæjarklaustri,“ segir Linda.

Stefnir í að hvert sæti verði skipað
Menningarmálaráðuneytið styrkir verkefni hljómsveitarinnar og auk þess hafa Uppbyggingarsjóður SASS og Tónlistarsjóður staðið vel við bakið á starfseminni og þá hafa nokkur fyrirtækja á Suðurlandi einnig lagt henni lið.

Að sögn Lindu er búið að skipuleggja tónlistardagskrá Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands allt til ársins 2025. „Næstu verkefni að loknum jólatónleikunum verða Vínartónleikar í Hvolnum á Hvolsvelli með Diddú og Karlakór Rangæinga þann 7. janúar og svo páskatónleikar þar sem Kirkjukór Selfosskirkju, Kammerkór Norðurlands og Skagfirski Kammerkórinn munu koma fram með hljómsveitinni ásamt einsöngvurum. En fyrst eru það jólatónleikarnir, miðasala er í fullum gangi á tix.is og hefur eftirspurnin verið mikil. Það stefnir í að hvert sæti verið skipað í kirkjunni,“ segir Linda að lokum.

Greta Guðnadóttir konsertmeistari og Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHornleikarinn sem kennir myndlist á daginn og hannar óróa á kvöldin
Næsta greinOrkuöflun Selfossveitna verulega skert eftir bruna