Þjóðsaga frumflutt í Sögusetrinu

Í dag kl 18:00 verður frumflutt nýtt íslenskt tónverk eftir þá Hafstein Þórólfsson og Hannes Pál Pálsson í Sögusetrinu á Hvolsvelli.

Verkið, sem nefnist Þjóðsaga, er tónverk í átta köflum við frumsamda sögu sem byggð er á persónu úr þjóðsögunni Systkinin í Ódáðahrauni sem nefnist Barna-Þórður.

Sagan gerist norðan Vatnajökuls og má þar nefna Drekagil, Ódáðahraun og Herðubreið, svæði sem eru þekkt fyrir anda, útilegumenn, álfa, tröll og allskyns vætti. Sagan og tónlistin sem heild er dulmögnuð, spennandi, dramatísk og skemmtileg og höfðar til allra aldurshópa, ekki síst barna.

Þjóðsaga fjallar um hvernig Þórður fékk viðurnefni sitt, Barna Þórður. Tónlistin ber einkenni þjóðlegrar íslenskrar tónlistar en hver kafli verksins lýsir ákveðnum atburðum í framvindu sögunnar sem er svo bundin saman með sögumanni.

Verkið er lagrænt og aðgengilegt og tekur um 45 mínútur í flutningi fimm manna kórs og tveggja einsöngvara.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarsjóði Suðurlands og Samfélagssjóði Landsvirkjunar.

Aðgangseyrir er 1.500 krónur en frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.

Fyrri greinHljómeyki flytur verk Hreiðars Inga
Næsta greinBryggjuhátíðin haldin í dag