Þjóðleikur á Stokkseyri um helgina

Lokahátíð Þjóðleiks, leiklistarhátíðar ungmenna fer fram á Stokkseyri í dag og á morgun. Er þetta í fyrsta sinn sem hátíð þessi er haldin á Suðurlandi.

Þjóðleikur felst í því að nokkrir leikhópar ungs fólks á aldrinum 13 til 18 ára koma saman og setja á svið þrjú leikrit sem samin hafa verið fyrir þetta tilefni. Það eru leikskáldin Hallgrímur Helgason, Hlín Agnarsdóttir og Salka sem samið hafa stutt leikrit fyrir leikhópana.

Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráðs, menningarmiðstöðva og fleiri aðila og hefur undirbúningur staðið yfir um nokkurt skeið. Tilgangur verkefnisins er að efla leiklistaráhuga ungs fólks en sjö hópar hafa skráð sig til leiks að þessu sinni, tveir úr Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi, einn frá Hellu, frá Vallaskóla, grunnskólanum í Hveragerði, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri og Flóaskóla.

Æfingar hafa staðið yfir hjá hópunum og nú þegar hefur leikhópur Fjölbrautaskólans sýnt tvö verkanna. Aðrir hópar eru þessa dagana að undirbúa sýningar, hver á sínu svæði.

Um tuttugu manns eru í hverjum hópi og mun hver og einn hópur sýna sitt verk á lokahátíðinni á Stokkseyri og einnig geta fylgst með uppsetningu annarra hópa á sama verki.

Í hópunum eru ekki eingöngu leikarar heldur einnig aðstoðarfólk, ljósamenn, förðunarfólk og fleira þessháttar, sem til þarf til að setja á svið leiksýningu. Sýnt verður á þremur sviðum, tveimur í menningarmiðstöðinni og einnig í Gimli.

Hóparnir hittast í dag og fylgja þar ákveðinni dagskrá. Almenningi er einnig boðið að fylgjast með og getur fólk keypt aðgang að öllum sýningum. Að sögn forsvarsmanna hátíðarinnar þykir mjög gott að ná sjö hópum á fyrsta ári Þjóðleiks og ljóst þykir að hátíðin fari fram aftur að ári, en samkvæmt reynslu frá öðrum landshlutum fjölgar mjög þátttakendum á milli ára.

Fyrri greinFjárfestingar fyrir hundruðir milljóna framundan
Næsta greinGuggurnar á Rósenberg í kvöld