Þekktustu sálmar sr. Valdimars Briem sungnir og gefnir út

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna stóð í ströngu um miðjan aprílmánuð því þá fóru fram upptökur á völdum sálmum sr. Valdimars Briem.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í allan vetur undir forystu Þorbjargar Jóhannsdóttur organista. Upptökurnar fóru í Skálholtsdómkirkju og gert er ráð fyrir að hljómdiskur verði kominn í dreifingu með haustinu. Þá er einnig ætlunin að halda tónleika samhliða útgáfunni.

Sr. Valdimar Briem (1848-1930) vígðist til Hrepphóla í Hrunamannahreppi árið 1873 en var síðar einnig settur til að þjóna Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi og fluttist þangað árið 1880 og bjó þar til æviloka. Sr. Valdimar er eitt afkastamesta trúarskáld okkar Íslendinga og í sálmaarfinum okkar á hann margar perlurnar.

Þegar lagt var upp með verkefnið þótti vel við hæfi að kirkjukórinn úr sveitinni sem sr. Valdimar þjónaði og var honum alla tíð svo kær myndi koma að sérstakri útgáfu á sálmum hans. Við undirbúning útgáfunnar naut kór og organisti aðstoðar Hauks Guðlaugssonar fv. söngmálastjóra kirkjunnar og Hilmars Arnar Agnarssonar organista og kórstjóra. Upptökustjóri var Halldór Víkingsson.

Meðal þekktra sálma sem verða á hljómdisknum má nefna „Í dag er glatt í döprum hjörtum”, „Ég horfi yfir hafið”, „Nú árið er liðið í aldanna skaut” og „Þú Guð sem stýrir stjarnaher”.

Fyrri greinÆgir áfram í bikarnum
Næsta greinLjóðmæli Helgu á Grjótá